Barbapapa (1973-)

Barbapapa fjölskyldan

Sögupersónan Barbapapa naut mikilla vinsælda á áttunda áratugnum og gekk reyndar í gegnum endurnýjun lífdaga eftir aldamótin. Fyrstu bækurnar um Barbapapa komu út á Íslandi fyrir jólin 1973 á vegum bókaútgáfunnar Iðunnar og slógu strax í gegn, reyndar eins og víðast annars staðar en þær eru margverðlaunaðar í flokkum barnabókmennta, höfundar þeirra voru Annette Tison og Talus Taylor.

Bækurnar fjölluðu um Barbapapa og fjölskyldu hans en þau hafa eins konar útlit amabna og geta breytt lögun sinni en hvert þeirra hefir sinn lit og karakter sem vísar til nafns þeirra. Boðskapur fjölskyldunnar var einkar umhverfisvænn og féll því víða í góðan jarðveg en bækurnar voru einnig fræðandi og skemmtilegar.

Fyrstu árin var einungis um bækurnar að ræða hér á landi en eftir miðjan áttunda áratuginn mátti fá hér ýmsan varning svosem sængurverasett, bolla, diska og margt fleira.

Fyrir jólin 1978 komu út tvær bækur í Barbapapaflokknum en það hafði verið hinn árlegi útgáfuskammtur frá 1973 en að þessu sinni fylgdi með annarri bókinni fjögurra laga plata, Barbapapa – plötubók, sem hafði að geyma söng Gylfa Kristinssonar (fyrrum Stuðmanns), Kristínar Jóhannsdóttur (Melchior) og Ingunnar Hauksdóttur, auk Kórs Öldutúnsskóla sem söng undir stjórn Egils Friðleifssonar. Hljóðfæraleikurinn var í höndum erlendra hljóðfæraleikara.

Á plötunni var m.a. að finna lagið Fjölskylda Barbapapanna sem var titillag stuttra teiknimynda sem sýndar voru í Ríkissjónvarpinu um þær mundir, fyrst í Stundinni okkar á sunnudögum en síðan einnig á miðvikudögum.

Bækurnar um Barbapapa njóta ennþá nokkurra vinsælda meðal yngstu kynslóðarinnar en plötubókin er sjaldgæf og illfáanleg þótt platan sjálf sjáist reglulega á nytjamörkuðum og víðar.

Efni á plötum