Barna- og kammerkór Biskupstungna (1991-2008)

Barna- og kammerkór Biskupstungna

Mjög öflugt barnakórastarf hófst í Biskupstungunum þegar Hilmar Örn Agnarsson réðist þangað sem dómorganisti við Skálholtskirkju árið 1991 en hann hafði þá helst vakið athygli sem bassaleikari hljómsveitarinnar Þeys tíu árum fyrr.

Hilmar Örn reif upp tónlistarlífið í hreppnum og stofnaði þá m.a. Barnakór Biskupstungna og stjórnaði honum þar til yfir lauk vorið 2008.

Kórinn sem hafði að geyma yngri og eldri deild, gegndi margvíslegu hlutverki í tónlistarlífi Tungnamanna, hann söng við kirkjulegar athafnir, kom fram á tónleikum og kom ótal sinnum fram á kóramótum og í sjónvarpi auk þess að syngja á kóramótum erlendis, s.s. í Danmörku og Ítalíu, kórinn söng einnig á heimssýningunni í Japan 2005. Þá tók hann þátt í ýmsum stærri verkefnum m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, með Megasi við flutning á Passíusálmum Hallgríms Péturssonar í Hallgrímskirkju um páskana 2001 og við frumflutning á Brynjólfsmessu Gunnars Þórðarsonar vorið 2006, svo dæmi séu tekin.

Nokkrar plötur komu út með kórnum en upplýsingar um þær eru afar takmarkaðar og óskast því sendar vefsíðunni. Aukinheldur er söng hans að finna á plötu Megasar, Passíusálmum í Hallgrímskirkju (2006), plötu Bjarna Sigurðssonar frá Geysi, Horft til baka (2007) og nokkrum safnplötum með kóratónlist s.s. Ég get sungið af gleði (1995), Trúartónar (1999), Óskastundin (2002) og Kom englatíð (1999).

Barna- og kammerkór Biskupstungna

Þegar elstu meðlimir kórsins voru orðnir of fullorðnir fyrir Barnakór Biskupstungna gengu þeir beint inn í Kammerkór Biskupstungna sem Hilmar Örn stofnaði gagngert í því skyni, um tíma gengu kórarnir undir nafninu Barna- og kammerkór Biskupstungna en síðan eingöngu undir síðarnefnda nafninu. Það má því segja að Hilmar Örn hafi með starfi sínu sem kórstjórnandi ýtt blómlegu kórastarfi úr vör og síðan viðhaldið því með stofnun nýs kórs.

Þegar Hilmari Erni var sagt upp organista- og kórstjórnarstarfinu við Skálholtskirkju (þar sem hann stjórnaði þremur kórum), vakti það mikla athygli og urðu miklar deilur innan sveitarfélagsins vegna þess. Hann hætti störfum vorið 2008 og voru kórarnir samhliða því lagðir niður, um haustið voru þó haldnir eftirminnilegir kveðjutónleikar í Skálholtskirkju honum til heiðurs þar sem kórar hans sungu í hinsta sinn.

Efni á plötum