Barnakór Seltjarnarneskirkju (1980-2012)

Barnakór starfaði á Seltjarnarnesi með hléum frá 1980 til 2012 og jafnvel lengur.

Fyrsta áratuginn gekk kórinn undir nafninu Barnakór Seltjarnarness en þegar Seltjarnarneskirkja var vígð 1989 virðist sem starfsemin hafi færst inn í kirkjuna. Engar upplýsingar er að finna um stjórnendur kórsins frá 1980 til 90 en árið 1993 var Sesselja Guðmundsdóttir kórstjóri. Fljótlega eftir miðjan tíunda áratuginn tók hin tékkneska Viera Manasek við stjórn kórsins og hún mun hafa verið stjórnandi Barnakórs Seltjarnarness allt til 2006, síðustu árin ásamt eiginmanni sínum Pavel Manesek. Svo virðist sem kórstarfið hafi legið niðri um nokkurra ára skeið eftir það.

Kórinn tók virkan þátt í starfi kirkjunnar, tók einnig þátt  í kóramótum og mun ennfremur hafa farið að minnsta kosti einu sinni utan til tónleikahalds.

Árið 2010 var kórinn kominn á fullt á nýjan leik en Inga Björg Stefánsdóttir tónmenntakennari við Mýrarhúsaskóla var þá stjórnandi hans, um það leyti mun kórinn hafa sameinast Barnakór Mýrarhúsaskóla undir nafninu Barnakór Mýrarhúsaskóla og Seltjarnarness en starfaði ekki lengi eftir það.

2012 mun kórinn eða að minnsta kosti hluti hans hafa komið við sögu í myndbandi tónlistarmannsins Ásgeirs Trausta, Dýrð í dauðaþögn en síðan þá er engar heimildir að finna um þennan kór.