Barnakór Varmárskóla (1979-)

Barnakór Varmárskóla

Barnakór Varmárskóla (sem hin síðari ár hefur oftar gengið undir nafninu Skólakór Varmárskóla) hefur starfað við Varmárskóla í Mosfellsbæ (áður Mosfellssveit) síðan 1979, alla tíð undir stjórn sama manns.

Kórinn var stofnaður 1979 og hefur síðan verið hluti af fjölbreyttu og öflugu kórastarfi í Mosfellsbæ en hvergi er að finna fleiri kóra miðað við mannfjölda.

Guðmundur Ómar Óskarson hefur verið stjórnandi Barnakórs Varmárskóla frá upphafi en fjöldi meðlima hans hefur iðulega verið á milli sextíu og áttatíu talsins, jafnvel fleiri stundum. Stúlkur eru í miklum meirihluta í kórnum en honum er iðulega skipt í þrjá aldurshópa.

Barnakór Varmárskóla syngur að jafnaði um þrjátíu sinnum á ári og hefur fasta viðburði á dagskrá sinni eins og svo margir kórar, þá hefur hann farið erlendis í söngferðalög að minnsta kosti í þrígang. Einnig er nokkur lög með söng kórsins að finna á safnplötunni Í Mosfellsbæ, sem kom út árið 1999.