Blue note [félagsskapur] (1969-70)

Auglýsing frá Blue note

Mikil blúsvakning var í kringum 1970 og spruttu víðast hvar upp blúshljómsveitir af ýmsum stærðum og gerðum hérlendis. Blúsáhugamannaklúbburinn Blue note var stofnaður mitt í þessari vakningu og starfaði í rúmlega ár, hann hafði aðsetur í Klúbbnum við Lækjarteig (nú Cabin hótel við Borgartún) og þar voru haldin blúskvöld þar sem hinar og þessar hljómsveitir léku, einnig voru haldin þar jam session. Í þessum blúshræringum skiptust menn á skoðunum og mynduðu sambönd og urðu nýjar hljómsveitir til upp úr því samkrulli, mun t.d. hljómsveitin Tilvera hafa verið stofnuð upp úr blúskvöldi í Klúbbnum.

Tónlistarmennirnir sem komu fram á blúskvöldum Blue note skiptu jafnt með sér ágóðanum af kvöldinu, sem mun þó oftast hafa verið lítill eða jafnvel enginn. Þetta var því mestmegnis hugsjónastarf.

Ekki finnast neinar heimildir um hverjir voru í forsvari fyrir klúbbinn en það gæti hafa verið einhver kjarni í kringum hljómsveitina Blúskompaníið (Blues company).

Um fjögur hundruð manns voru í Blue note þegar mest var, og var um helmingur þess fjölda tónlistarfólk.