Boneyard (1990-91)

Boneyard

Hljómsveitin Boneyard lék þungt rokk, starfaði í nokkra mánuði í upphafi tíunda áratugarins en tók þá upp nýtt nafn og nýjar áherslur.

Sveitin var stofnuð líklega um vorið 1990 og voru meðlimir hennar í upphafi Hallur Ingólfsson trommuleikari, Gunnar Bjarni Ragnarsson gítarleikari og söngvari, Sigurður Gíslason gítarleikari og Guðmundur Þórir Sigurðsson bassaleikari.

Gunnar Bjarni hætti skyndilega í sveitinni þegar Halli varð það á að kalla hann hippa og í kjölfarið var Vilhjálmur Goði Friðriksson Brekkan ráðinn söngvari sveitarinnar, fjölmargir voru þó prófaðir áður en hann kom inn.

Þannig skipuð birtist sveitin opinberlega sumarið 1990, spilaði heilmikið í kjölfarið og vakti nokkra athygli. Hún lifði þó aðeins framyfir áramótin undir þessu nafni, tók þá upp nafnið Bleeding volcano og við það breyttust áherslur og í kjölfarið mannaskipan.