Bong (1992-97)

Bong

Dúettinn Bong varð til í danstónlistarbylgju sem gekk yfir landið á tíunda áratugnum, átti lög á fjölda safnplatna hér heima og erlendis, reyndi fyrir sér á alþjóðavettvangi en varð lítt ágengt.

Þau Móeiður Júníusdóttir (Móa) og Eyþór Arnalds sem voru par á þessum tíma hófu að gera tilraunir með að semja og búa til danstónlist undir nafninu Bong um mitt ár 1992, þá hafði Móeiður vakið nokkra athygli fyrir framlag sitt í Söngkeppni framhaldsskólanna vorið 1990 og með Jazzbandi Reykjavíkur í framhaldi af því, og Eyþór var á fullu í hljómsveit sinni Todmobile. Þau skötuhjúin unnu danstónlist sína mestmegnis á bak við tjöldin til að byrja með enda hlaðin öðrum verkefnum.

Þau gáfu sér samt sem áður tíma til að taka upp efni og sumarið 1993 poppaði nafnið Bong fyrst upp á safnplötunni Núll og nix: ýkt fjör sem fylgdi tímaritinu Núll og síðan aftur um haustið á tveimur safnplötum, Reif á sveimi og Ýkt stöff. Það gaf svolítið forsmekkinn fyrir það sem átti eftir að gerast því á næstu tveimur árum á eftir áttu eftir að koma út lög með sveitinni á átta safnplötum hérlendis.

Þau Móa og Eyþór voru á kafi í öðrum verkefnum samhliða Bong þetta haust (1993), Móa sendi frá sér sína fyrstu sólóplötu, Móa syngur lögin við vinnuna og Eyþór var á fullu með Todmobile sem gaf út plötuna Spillt. Þá var reyndar ljóst að Todmobile væri að fara í frí um áramótin og þá gátu þau einbeitt sér að Bong.

Bong 1993

Það var því um áramótin 1993-94 sem Bong fór á fullt, sveitin fór að koma mun meira fram opinberlega en áður, fyrst í stað höfðu þau verið tvö á sviðinu en á nýju ári bættu þau við sig mannskap og voru þá með fullskipaða hljómsveit, en Guðmundur Jónsson gítarleikari úr Sálinni hans Jóns míns (sem þarna var í fríi), Jakob Smári Magnússon bassaleikari úr SSSól og Arnar Geir Ómarsson trommuleikari sem kom út Ham gengu þá til liðs við Bong sumarið 1994. Hafþór Guðmundsson slagverksleikari bættist síðar einnig við sveitina. Þar með fór Bong að leika meira á böllum en slíkt hafði aldrei verið á dagskrá tvímenninganna. Sveitin nýtti sér nokkuð myndbönd á sviði og tengdi við tónlistina en slíkt var ekki endilega algengt á þeim tíma.

Þannig skipuð fór sveitin á fullt um sumarið og lék á tónleikum um allt land, þá fór Bong einnig í samstarf við hljómsveitina Bubbleflies og sveitirnar tvær sendu saman frá sér lagið Loose your mind undir nafninu Bob og túruðu saman undir slagorðinu „Grúví sé lof og dýrð“. Þá lék sveitin á Þjóðhátíð í Eyjum um verslunarmannahelgina 1994 og kom einnig fram á Íslandskynningarhátíð í London á vegum sendiráðs Íslands og Jakobs F. Magnússonar menningarfulltrúa þar í landi.

Þótt Bong væri að grunninum til danssveit sem byggði að mestu á stafrænni tækni við tónlistarsköpun sína notuðu þau þó „venjuleg“ hljóðfæri einnig eins og skipan hljómsveitarinnar gefur til kynna en aukinheldur notuðu þau nokkuð strengi í upptökum enda er Eyþór sellóleikari, þannig kom Caput-hópurinn við sögu í upptökum auk fleiri hljóðfæraleikara s.s. Sigtryggur Baldursson slagverksleikari, Helga Þórarinsdóttir lágfiðluleikari og Óskar Guðjónsson saxófónleikari svo dæmi séu nefnd.

Bong 1994

Sem fyrr segir var Bong áberandi á safnplötum þann tíma sem hún starfaði og árið 1994 birtist hún á plötum eins og Reif í tólið, Ringulreif, Reif í staurinn, Reif í skeggið / Dans(f)árið ´94 og Spor kynnir íslenska tónlist fyrir jólin 1994, og kynnti tónlist sína með þeim hætti. Steinar Berg útgefandi gerði einnig sitt til að koma sveitinni á framfæri á erlendum vettvangi og voru tónleikarnir í London hluti af þeirri herferð, en einnig komu  þau við sögu á nokkrum erlendum safnplötum þetta árið.

Bong vann ennfremur að breiðskífu samhliða öðrum verkefnum og aukamannskapurinn kom við sögu á þeim upptökum, platan átti að koma út um haustið og um það leyti settu þau meiri kraft í útrásina með útgáfu á smáskífunni Do you remember? sem kom út víða í Evrópu s.s. í Þýskalandi, Benelux-löndunum og Norðurlöndunum. Þar á meðal var tvöföld vínylsmáskífa.

Breiðskífan, Realease, kom út fyrir jólin hér heima eins og áætlað var en hún hafði mestmegnis verið hljóðrituð í Stúdíó Gný sem Eyþór átti hlut í. Hún hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu, og þokkalega í DV, Degi og Helgarpóstinum en seldist þó ekkert sérlega vel, um fimmtán hundruð eintaka höfðu selst í lok ársins 1994.

Bong hélt sínu striki árið 1995 og spilaði nokkuð opinberlega hér heima framan af ári en um vorið var ljóst að það myndi fækka í sveitinni aftur enda var Guðmundur þá að fara af stað með sveit sinni, Sálinni hans Jóns míns og þeir Jakob og Hafþór með SSSól. Þess í stað var unnið af festu við að koma sveitinni á framfæri erlendis og þetta ár (1995) birtist hún á a.m.k. fimm erlendum safnplötum auk nokkurra hér heima s.s. Pottþétt 2 og Reif í kroppinn.

Fjölskipuð Bong

Um haustið komu þau Bong-liðar við í leikhúsheiminum þegar þau önnuðust hljóðmynd fyrir Íslenska leikhúsið í leikritinu Í djúpi daganna (e. Maxim Gorki). Um líkt leyti var smáskífan af laginu Devotion að koma út víða í Evrópu s.s. Þýskalandi og Bretlandi, og þau Móeiður og Eyþór birtust í fjölda blaðaviðtala í popptímaritum í Bretlandi í þeirri viðleitni sinni að koma sér á framfæri á alþjóðvettvangi. Á sama tíma varð sveitin mun minna áberandi hér heima enda öll orkan sett í útrásina. Þau spiluðu eitthvað í klúbbum í Bretlandi fyrri hluta árs 1996, einnig í Þýskalandi um sumarið og jafnvel víðar en minna hér heima sem fyrr segir. Þau héldu þó tónleika í Tunglinu um sumarið og var þeim tónleikum streymt á Internetinu en það var þá líklega í fyrsta skipti sem slíkt var gert í Evrópu. Bong var líklega með aukamannskap með sér þetta sumarið en ekki liggja fyrir upplýsingar um þá. Eyþór var um þetta leyti farinn að starfa fyrir Oz hugbúnaðarfyrirtækið og var Bong liður í tilraun fyrirtækisins við tónlistartengdan tölvuleik og aðra skylda tækni.

Haustið 1996 byrjaði Todmobile að starfa aftur en Eyþór hafði þá yfirið nóg að gera og sagði sig frá því verkefni, hann lék þó sem aukamaður á plötu þeirrar sveitar, Perlur og svín, sem kom út fyrir jólin. Þetta sama haust bárust fréttir af útgáfusamningi Bong við Dance Pool sem var dótturfyrirtæki Sony, um útgáfu í Evrópu og Suður-Ameríku og dreifingu í Asíu og Ástralíu.

Smáskífa af laginu Do you remember kom því aftur út í kjölfarið á vegum Dance Pool og sveitin vann í London að breiðskífu fyrir alþjóðamarkað en vinna við hana tafðist trekk í trekk, fyrst var talað um að hún ætti að verða tilbúin í febrúar 1996 en síðar um áramótin 1996-97, hún kom hins vegar aldrei út og þannig fjaraði smám saman undan þeim draumum. Sem fyrr komu hins vegar út lög með sveitinni á erlendum safnplötum og reyndar hafa lög hennar verið að birtast á slíkum plötum allt fram til þessa dags.

Þegar hér var komið sögu hafði Mega records sem gefið hafði út smáskífur með sveitinni í Bretlandi lagt upp laupana, í kjölfarið fór Móa að vinna tónlist ein síns liðs enda var Eyþór þá kominn í stjórnunarstöðu hjá Oz og lagði því alla tónlistarsköpun á hilluna í bili, þar með lauk sögu veturinn 1996-97 Bong án þess að sveitin næði að skapa sér nafn í hinum alþjóðlega danstónlistarheimi.

Efni á plötum