Brúðubíllinn (1976-)

Sigríður Hannesdóttir og Bryndís Gunnarsdóttir á upphafsárum Brúðubílsins

Brúðubíllinn er ómissandi þáttur af barnæsku fjölmargra kynslóða en hann hefur starfað óslitið allt frá árinu 1976.

Reyndar má rekja upphaf Brúðubílsins allt aftur til ársins 1968 þegar Leikbrúðuland Jóns E. Guðmundssonar var stofnað en það fyrirtæki kom að ýmsum verkefnum m.a. fyrir Ríkissjónvarpið sem þá var tiltölulega nýstofnað. Fúsi flakkari og Rannveig og Krummi voru meðal brúðuverkefna sem unnin voru fyrir Stundina okkar og ljáði Sigríður Hannesdóttir  Krumma rödd sína en hún átti síðar eftir að koma við sögu Brúðubílsins sem og Helga Steffensen sem einnig var viðloðandi starfsemi Leikbrúðulands.

Það var svo vorið 1976 sem þau Jón og Sigríður fóru fyrst af stað með það sem síðan fékk nafnið Brúðubíllinn. Fyrst um sinn fóru þau á milli gæsluleikvalla Reykjavíkur-borgar á einkabíl af Opel gerð með skottið fullt af brúðum og leikmyndina einnig en hún var síðan sett saman á staðnum og síðan tekin niður að sýningu lokinni.

Jón dró sig í hlé eftir tvö ár með Brúðubílnum og var Bryndís Gunnarsdóttir með Sigríði um tíma áður en Helga Steffensen kom inn í starfsemina og tók við af Bryndísi árið 1980. Á þessum árum voru mun fleiri sýningar en síðar varð og sumarið 1979 voru þær t.d. um hundrað og sjötíu talsins, síðar meir var algengt fyrirkomulag að vera með milli þrjátíu og fjörutíu sýningar í senn og tvær umferðir, eina í júní og aðra í júlí. Síðustu árin hefur Brúðubíllinn einnig verið með sýningar yfir vetrartímann.

Helga Steffensen og Sigríður Hannesdóttir með Lilla apa og félögum

Fyrstu árin var sem fyrr segir farið með sýningarnar á milli gæsluvalla á höfuðborgarsvæðinu en síðar meir var einnig farið út á land með þær, enn síðar var Brúðubíllinn fastur liður á Þjóðhátíð, Ljósanótt, Fiskideginum mikla og þess konar hátíðum auk þess sem hann hefur verið á ferðinni á þjóðhátíðardaginn, 17. júní.

Reykjavíkur-borg fór að koma í auknum mæli að Brúðubílnum, fyrst í stað með hátalarakerfi og síðan bíl, og eftir að íþrótta og tómstundaráð Reykjavíkur tók við rekstrinum hefur hann verið í nokkuð öruggum höndum.

Brúðubíllinn hefur allan þann tíma sem hann hefur starfað notið mikilla vinsælda á meðal yngstu áhorfendanna sem alltaf eru þakklátir en um leið kröfuharðir, algengt er að um þrjú til fjögur hundruð áhorfendur séu á sýningum en þeir hafa stundum farið yfir þúsund þegar mest er, og auðvitað enn fleiri á stórum hátíðum. Áður en sýningarnar fóru út á land á sínum tíma birtust reglulega lesendabréf í dagblöðunum með óskir um það, sem og að Brúðubíllinn kæmi fram í sjónvarpinu, þeim varð að ósk sinni og reyndar annaðist Helga Stundina okkar um tíma (1987-94) þar sem brúðurnar léku nokkurt hlutverk.

Helga hefur haft yfirumsjón með Brúðubílnum síðan hún kom inn um 1980 og hefur samið efnið að mestu, Sigríður var lengst af með henni og samdi einnig söngtexta við leikþættina, þess má geta að hún samdi textann við Atte katte noa sem flestir þekkja en sá mun hafa birst fyrst í meðförum Krumma og Rannveigar.

Brúðubíllinn 1979

Margir aðrir hafa komið að Brúðubílnum í gegnum tíðina, bæði sem brúðustjórnendur, brúðugerðarfólk, leikstjórar og aðstoðarfólk og skiptir fjöldi þeirra mörgum tugum. Leikararnir Sigrún Edda Björnsdóttir, Örn Árnason og Þórhallur Sigurðsson eru meðal þeirra sem lengst hafa leikstýrt Brúðubílnum en hver sýning hefur venjulega tvö leikrit eftir Helgu, oft byggð á þjóðlegri hefð og þekktum minnum úr ævintýrum, margir tugir slíka leikþátta liggja eftir hana. Þess hefur einnig alltaf verið gætt að brúðurnar hafi einhvern hollan boðskap fram að færa, sem og fræðslu og umferðarreglurnar eru einmitt dæmi um slíkt.

Brúðusýningarnar hafa eðlilega tekið nokkrum breytingum frá árinu 1976, fyrst um sinn stóð Sigríður fyrir framan „leikhúsið“ og talaði við brúðurnar en síðan færðust leikþættirnir alveg inn fyrir leiktjöldin. Þá þróuðust sýningarnar í þá átt að raddirnar voru mikið til á segulbandi og síðar á stafrænu formi enda bauð það upp á miklu fleiri möguleika í röddum brúðanna, margir kunnir leikarar lögðu þá til raddir handa þeim.

Margar brúðurnar hafa orðið þjóðþekktar og margir þekkja Gústa, Ömmu, Úlla úlf og auðvitað Lilla apa en sá síðast nefndi hefur verið ómissandi hluti Brúðubílsins frá árinu 1984 og þrátt fyrir að Helga hafi oft reynt að leggja hann á hilluna hafa áhorfendur alltaf kallað aftur eftir honum, enda þarf að kenna honum litina og að telja. Það hefur enn ekki tekist almennilega þótt hann sé kominn á fertugs aldur þegar þetta er ritað.

Helga Steffensen í góðum félagsskap

Tvær plötur hafa komið út með Brúðubílnum, sú fyrri kom út árið 1983 og hét einfaldlega Brúðubíllinn, og sú síðar kom út 1989 og bar titilinn Brúðubíllinn aftur á ferð. Skífan gaf báðar plöturnar út og á þeim báðum koma þjóðþekktir leikarar við sögu. Þess má einnig geta að Brúðubíllinn hefur tengingu við plötuna Haraldur í Skrýplalandi sem kom út 1979 en þær stöllur gerðu þá Skrýplabrúður (Strumpabrúður) sem notaðar voru við myndbandagerð Haraldar og Skrýplanna. Ennfremur hefur komið út myndband með Brúðubílnum sem og bókin Afmælisdagurinn hans Lilla.

Helga Steffensen hefur hlotið fálkaorðuna fyrir framlag sitt til íslenskrar barnamenningar.

Efni á plötum