Brynjólfur Þorláksson (1867-1950)

Brynjólfur Þorláksson

Segja má að Brynjólfur Þorláksson hafi verið einn af tónlistarfrumkvöðlum Íslands en hann spilar nokkuð stóra rullu við upphaf tuttugustu aldarinnar þegar söng- og kórastarf var að mótast hér á landi sem og í sönglífi Vestur-Íslendinga í Kanada, þá var hann einnig afar fær harmóníum-leikari og var um tíma Dómkirkjuorganisti. Í umfjöllunum um Brynjólf og störf hans kemur hugtakið „söngfræðingur“ oftsinnis fyrir.

Brynjólfur fæddist á Nýjabæ á Seltjarnarnesi 1867 og ólst þar upp en gekk í skóla í Reykjavík. Á barnaskólaárunum lærði hann nótnalestur en tónlistin var honum í blóð borin þar sem faðir hans æfði söngflokk og þannig kynntist hann sönglistinni. Snemma fór Brynjólfur sjálfur að syngja, hann söng til dæmis í söngfélaginu 14. janúar um skeið og Söngfélaginu Hörpu síðasta árið sem það starfaði (1893), að öllum líkindum söng hann í fleiri kórum.

Brynjólfur mun hafa smíðað tíu strengja hljóðfæri sem einna helst líktist sítar og tókst honum að spila eitthvað á það, tvíraddað og jafnvel þríraddað. Hins vegar var hann orðinn átján ára þegar hann lærði á orgel hjá Jónasi Helgasyni og síðan hjá Önnu Pétursson á píanó. Veturinn 1898-99 nam Brynjólfur tónfræði og orgelleik í Kaupmannahöfn og hafði fengið til þess styrk frá alþingi en þá er tónlistarmenntun hans líka upptalin.

Því hefur verið haldið fram að Brynjólfur sem þá lék á harmóníum hafi ásamt Jónasi Helgasyni fiðluleikara, Helga Helgasyni fiðluleikara og Reynholt Andersen flautuleikara verið fyrstir til að leika samleik opinberlega á Íslandi, fyrir utan lúðrasveitaleik. Það var í kringum aldamótin.

Aðal starf Brynjólfs var framan af ritarastarf á skrifstofu landshöfðingja en þar starfaði Brynjólfur í um tvo áratugi áður en tónlistin tók alveg yfirhöndina. Hann stjórnaði kórum víðs vegar um borgina, m.a. kór K.F.U.M., Karlakór iðnaðarmanna, drengjakórnum Voninni og Kátum piltum en tvo síðast nefndu söngfélögin stofnaði hann jafnframt sjálfur. Menn vilja meina að hátindi ferils hans hafi verið náð þegar hann stjórnaði sameiginlegum kór Karlakórs iðnaðarmanna og Kátra pilta við konungsheimsókn árið 1907 en fyrir það hlaut hann mikið lof.

Blandaði kórinn sem söng við konungskomuna 1907

Brynjólfur varð organisti Dómkirkjunnar árið 1903 þegar Jónas Helgason organisti (og annar brautryðjandi í íslenskri tónlist) féll frá, Brynjólfur gegndi því starfi til ársins 1912 og stjórnaði þá um leið kór Dómkirkjunnar. Hann varð einnig kunnur undir- og meðleikari á tónleikum kóra og einsöngvara, og hélt jafnvel tónleika sjálfur.

En Brynjólfur var einnig kennari, hann kenndi söng t.a.m. í Lærða skólanum, Kvennaskólanum, Prestaskólanum og Barnaskóla Reykjavíkur, meðal annarra mun hann hafa kennt Sigvalda Kaldalóns og Hallgrími Helgasyni en það var líklega í einkakennslu, þá kenndi hann einnig á orgel og gaf út nótnahefti fyrir orgel, m.a. Organtónar I og II. Þess má geta að Brynjólfur var einn þeirra sem kom að stofnun Leikfélags Reykjavíkur árið 1897.

Tímamót urðu í lífi Brynjólfs árið 1913 en þá ákvað hann að söðla um og flytjast vestur um haf til Íslendingaslóða í Winnipeg í Kanada. Ákvörðunin kom ekki af góðu einu en honum hafði þótt sopinn góður og mun hafa talið lausnina felast í nýju umhverfi. Engar heimildir finnast um árangur hans ytra í baráttu sinni við Bakkus en um árangur hans á tónlistarsviðinu verður ekki deilt.

Fljótlega eftir að Brynjólfur kom á Vestur-Íslendingaslóðir í Winnipeg var hann orðinn organisti og kórstjórnandi, auk þess að kenna söng líkt og hér heima. Og hann færðist heldur betur í aukana því á þeim tveimur áratugum sem hann bjó í Kanada fór hann víða um dreifðar byggðir Íslendinga til að þjálfa kóra af ýmsum stærðum og gerðum, s.s. Kirkju- og safnaðarkórum, karlakórum og blönduðum kórum en mestmegnis þó kórum barna og unglinga. Þar hélt hann einnig tónleika sem orgelleikari og stjórnandi kóra sinna. Einn kóra hans innihélt á annað hundrað barna og annar sérhæfði sig í íslenskum ættjarðarlögum, svo segja má að hann hafi lyft sönglífi Íslendinganna á hærra stig í nýja heiminum, þar skipti framburðarkennsla nokkru máli. Alls mun hann á þessu tveggja áratuga skeiði hafa stjórnað um fjörutíu kórum með alls um tvö þúsund kórameðlimum, mest í Manitoba, Saskatchewan og Norður-Dakota. Í byggðum Vestur-Íslendinga var Brynjólfi hampað sem stóru nafni í tónlistarlífinu, bæði hvað varðar sönglistina sjálfa og svo því að kenna og viðhalda tungumálinu meðal Íslendinganna með framburðarkennslunni en margir þeirra höfðu týnt málinu niður með tíð og tíma.

Brynjólfur Þorláksson

Þegar eiginkona Brynjólfs lést árið 1933 þótti honum orðið tímabært að halda heim til Íslands á nýjan leik. Íbúar Nýja Íslands heiðruðu hann með stórum kveðjutónleikum við brottför en hann var þá orðinn sextíu og sex ára gamall og alls ekkert unglamb lengur. Hér heima höfðu menn ekkert gleymt þessum brautryðjanda í sönglistinni en margt hafði hér breyst á þeim tuttugu árum sem liðið höfðu frá því hann fluttist til Vesturheims og t.a.m. þótti honum söngkennslunni í barnaskólunum hafa farið nokkuð aftur, því var þó ekki um að kenna verri söngkennurum heldur fremur breyttu skipulagi og áherslum í skólakerfinu.

Þrátt fyrir að Brynjólfur væri kominn vel á sjötugs aldur átti hann eftir að starfa við tónlist meðan heilsan leyfði, hann kenndi söng við Barnaskólann í Reykjavík sem nú hét Austurbæjarskóli en einnig stjórnaði hann þremur barnakórum. Þegar Kór Lögreglufélags Reykjavíkur var stofnaður 1934 gerðist hann stjórnandi kórsins og stjórnaði þá einnig Karlakór alþýðu en allir kórarnir blómstruðu undir hans stjórn. Aðal starfi Brynjólfs þessa síðustu starfsdaga ævinnar mun þó hafa verið píanóstillingar.

Heilsu Brynjólfs hrakaði og segja má að fjarað hafi smám saman undan honum, hann var orðinn heilsulítill í byrjun heimstyrjaldarinnar síðari 1939 og hafði verið rúmfastur lengi þegar hann lést árið 1950, þá áttatíu og tveggja ára gamall.

Því miður eru engar útgefnar upptökur til með leik Brynjólfs eða söng kóra undir hans stjórn, og engar heimildir liggja fyrir um það í byggðum Vestur-Íslendinga. Þegar upptökumenn frá Columbia komu hingað til lands í tilefni Alþingishátíðarinnar 1930 og svo aftur þremur árum síðar til að taka upp efni sem var síðan gefið út á tugum hljómplatna á vegum Fálkans, var Brynjólfur enn í Ameríku en enginn vafi er á að hann hefði komið við sögu þeirra hefði hann verið þá hér á landi.