Vertu mér samferða inn í blómalandið amma

Vertu mér samferða inn í blómalandið amma
(Lag / texti: Magnús Þór Jónsson [Megas])

Á sunnudögum þegar Kristur tárum tefur
tillögu frá guði um þungaskatt
á gúmmívöru þá hefur María í myrkrinu
mök við grímuklætt útfrymi með pípuhatt
en guð býr í gasbindinu amma,
æ geymdu handa mér meyjarblómið amma.

Á mánudögum þegar Kristur kennir
kærustunnar minnar og mér um allt sem miður fer
og Jesaja spámaður spáir eins og galinn
og spýtir un tönn og bölvar henni mér
en guð býr í glötuninni amma,
æ geymdu handa mér meyjarblómið amma.

Á þriðjudögum þegar Kristur kemur
á KFUMfund og gefur börnunum dóp
og segir: komið til mín ef þið viljið meira
og þau mæla ekki orð en fylgja honum eftir í hóp
og guð býr í galeiðunni amma,
æ geymdu handa mér meyjarblómið amma.

Á miðvikudögum þegar Kristur klappar
sér á kúluvömbina og dæsir og segir: nú
og skipar þér höstuglega að koma með krossinn
Kaldal sé væntanlegur klukkan þrjú
en guð býr í gúmmíinu amma,
æ geymdu handa mér meyjarblómið amma.

Á síðkvöldum þegar Kristur kaupir
sér kúmenbrennivín á leyndum stað
og drekkur uns hann dettur út af blindur
og deyr og rís upp þunnur og fer í bað
og guð býr í girðingunni amma,
æ geymdu handa mér meyjarblómið amma.

Á fimmtudögum þegar Kristur keyrir
í Kádiljáknum upp að húsinu sem þeir kenna við Grím
og klifrar upp turninn á nóinu og talar tungum
tveim um ráðherrastóla og fiskilím
en guð býr í gjaldheimtunni amma,
æ geymdu handa mér meyjarblómið amma.

Í svartnættinu þegar Kristur kynnir
sér í kauphöllinni hvort gengið það verði fellt
og menn segja: jújú og hann upp í Hjólbarðanna
að hamstra dekk til að geta geymt og selt
en guð býr í gengishruni amma,
æ geymdu handa mér meyjarblómið amma.

Og á föstudögum þegar Kristur kinkar
til þín kolli og tautar: það er fullkomnað
og þú ert það fífl að fatta ekki djókinn,
fyllir geyminn og ekur strax af stað
og guð býr í gaddavírnum amma,
æ geymdu handa mér meyjarblómið amma.

En á laugardögum þegar Kristur klæmist
vita konur á barnsfeðrum sínum pottþétt skil
og Silli og Valdi þeir segjast sjálfir hafa legið
sæla Maríu áður en guð kom til
en guð býr í garðslöngunni amma,
æ geymdu handa mér meyjarblómið amma.

[af plötunni Megas – Megas]