X-bandið [1] (1928-31)

X-bandið

X-bandið mun hafa verið fyrsta hljómsveitin sem starfaði á Akureyri en það var á árunum 1928-31. Sveitin var nefnd „jazz orkester“ í fjölmiðlum þess tíma en merking þess orðs var þá nokkuð víðari en síðar varð, og því vart hægt að tala um djasshljómsveit.

Sveitin var stofnuð haustið 1928 og voru meðlimir hennar í upphafi þeir Þorvaldur Hallgrímsson píanóleikari, Arngrímur Árnason trommuleikari, Jón Norðfjörð banjó- og flautuleikari og Tómas Steingrímsson klarinettuleikari. Jakob Einarsson fiðluleikari kom síðastur inn í sveitina og þannig var sveitin skipuð uns hún hætti störfum vorið 1931, hún starfaði þó ekki alveg samfleytt þann tíma.

X-bandið lék aðallega á dansleikjum á Akureyri, oft í Góðtemplarahúsinu þar í bæ, en einnig lék sveitin bæði á Siglufirði og Ólafsfirði.

Í kringum starf sveitarinnar, sem naut mikilla vinsælda á Akureyri, var stofnaður eins konar aðgangsklúbbur sem bar heitið X-klúbburinn en meðlimir klúbbsins höfðu forgang að dansleikjum á vegum X-bandsins. Fyrir þátttökugjald sem fólk greiddi fékk það silfurkross (X) sem var þá einhvers konar aðgöngumiði að dansleikjunum.