Veröld (1991-92)

Veröld

Hljómsveitin Veröld birtist sumarið 1992 á safnplötunni Bandalög 5 með lag sitt, Kúturinn en meira heyrðist ekki frá sveitinni.

Veröld var stofnuð haustið 1991 og var markmiðið þá að koma út lagi sumarið eftir, það gekk eftir sem fyrr segir en lagið vakti ekki mikla athygli, um var að ræða eins konar popprokk og í blaðadómum um Bandalög 5 líktu tveir gagnrýnendur sveitinni við Nýdanska.

Meðlimir Veraldar voru Þröstur Óskarsson gítarleikari, Ólafur Þór Kristjánsson bassaleikari, Baldvin A.B. Aalen trommuleikari og Guðjón Bergmann söngvari en einnig kom Sigtryggur Ari Jóhannsson orgelleikari við sögu í laginu.

Veröld kom fram í nokkur skipti árið 1992, m.a. við kynningarátak og útgáfutónleika Bandalaga 5 en síðan hefur ekkert spurst við sveitarinnar.