Margrét Ólafsdóttir (1939-)

Margrét Ólafsdóttir

Margrét Ólafsdóttir telst með fyrstu dægurlagasöngkonum Íslands en í takt við tíðaranda þess tíma hvarf hún fljótlega af sjónarsviðinu til að sinna fjölskyldu og börnum.

Margrét fæddist 1939 í Reykjavík og þegar ungir og efnilegir söngvarar fengu tækifæri til að láta ljós sitt skína við undirleik hljómsveita á skemmtunum upp úr miðjum sjötta áratugnum þegar rokkið var nýkomið til landins, tók hún þátt í því og söng með nokkrum sveitum haustið 1957, s.s. Orion kvintett, Hljómsveit Björns R. Einarssonar, Kvintett Jóns Páls Bjarnasonar og Hljómsveit Jose Riba áður en hún var ráðin til að syngja með Hljómsveit Karls Jónatanssonar í Vetrargarðinum í Tívolí vorið 1958. Um sumarið söng hún jafnframt með H.J. kvintettnum og G.F. kvintettnum í Vetrargarðinum þegar Karl og félagar fóru í frí en um haustið byrjaði hún aftur að syngja með Karli og hljómsveit hans.

Söngferill Margrétar stóð þó stutt yfir, hún gifti sig um þetta leyti nítján ára gömul og helgaði sig fjölskyldulífinu eftir það. Hún söng reyndar með kórum síðar, t.d. Liljukórnum og Pólýfónkórnum, og á áttunda áratugnum lauk hún tónmenntakennaranámi en hún hafði einnig lært á fiðlu sem barn.