Metal (1980-85)

Metal

Hljómsveitin Metal var starfrækt um fimm ára skeið á fyrri hluta níunda áratug síðustu aldar, þrátt fyrir nafnið lék sveitin ekki þungarokk heldur danstónlist fyrir alla aldurshópa.

Metal var stofnuð snemma hausts 1980 og sögðust meðlimir sveitarinnar myndu leggja áherslu á kántrítónlist enda væru fáar þess konar sveitir hérlendis. Lítið virðist þó hafa farið fyrir kántríinu en þeim meiri áhersla á venjulegt ballprógramm en sveitin lék bæði á dansstöðum höfuðborgarsvæðisins og á dansleikjum á landsbyggðinni.

Meðlimir sveitarinnar voru í upphafi þeir Jón Yngvi Björnsson bassaleikari og söngvari, Helgi Sigurðsson trommuleikari, Alfreð Viggó Sigurjónsson hljómborðsleikari og Runólfur Birgir Leifsson gítarleikari. Ekki er kunnugt um að mannabreytingar í Metal en í smáauglýsingu frá sveitinni frá 1983 eru nöfn og símanúmer tilgreind, þar sem nafnið Ásgeir [?] kemur fyrir í stað Alfreðs. Linda Walker söng með sveitinni í að minnsta kosti eitt skipti vorið 1983.

Metal virðist hafa starfað fram á vor 1985.