Miðlarnir (1983-86)

Miðlarnir

Hljómsveitin Miðlarnir (ýmist nefnd Miðlar eða Miðlarnir) starfaði í Keflavík á árunum 1983 til 85 og lék mestmegnis á þeim slóðum, þó lék hún á dansleikjum s.s. í Vestmannaeyjum, Akranesi og víðar.

Guðbrandur Einarsson hljómborðsleikari, Guðmundur Hermannsson söngvari, Davíð Karlsson trommuleikari, Sveinn Björgvinsson gítarleikari og Kjartan Baldursson bassaleikari skipuðu sveitina, sem stofnuð var haustið 1983.

Miðlarnir fóru mikinn á dansleikjamarkaðnum um árabil eða allt fram á vorið 1986, þá stóð til að mannabreytingar yrðu í sveitinni er hún yrði fastráðin í KK veitingasölum í Keflavík, þá var gert ráð fyrir að Sigríður Beinteinsdóttir yrði söngkona sveitarinnar og að gítar- og hljómborðsleikari kæmi úr hljómsveitinni Drýsli, sá hlýtur að hafa verið Sigurgeir Sigmundsson. Ekkert bendir til að þessi útgáfa sveitarinnar hafi nokkru sinni starfað eins og gert var ráð fyrir.