
Bítilbræður 2025
Hljómsveitin Bítilbræður hefur verið starfandi frá árinu 2014 og leikur mestmegnis eins og nafn hennar gefur kannski til kynna, tónlist frá sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.
Það var Guðjón B. Hilmarsson trommuleikari sem stofnaði sveitina árið 2014 og aðrir stofnmeðlimir voru þeir Þórólfur Guðnason bassaleikari og söngvari, Guðmundur Eiríksson hljómborðsleikari og söngvari, Ársæll Másson gítarleikari og Gunnar Ringsted gítarleikari og söngvari.
Einhverjar mannabreytingar urðu á Bítilbræðrum og árið 2019 voru t.a.m. þeir Meyvant Þórólfsson gítarleikari og Ari Agnarsson hljómborðsleikari komnir í sveitina í stað þeirra Gunnars og Guðmundar, það virðist þó aðeins hafa verið tímabundið því þeir félagar komu aftur inn í hana fljótlega.
Árið 2025 voru Bítilbræður skipaðir þeim Guðjóni trommuleikara, Þórólfi bassaleikara, Guðmundi hljómborðsleikara, Gunnari gítarleikara og Óttari Felix Haukssyni gítarleikara og söngvara sem hafði tekið sæti Ársæls en hann lést haustið 2024. Sveitin var nokkuð virk um sumarið og haustið 2025, og var þá hvergi nærri hætt.














































