Ég minnist þín

Ég minnist þín
Lag / texti: írskt þjóðlag / Ásmundur Jónsson

Ég minnist þín um daga og dimmar nætur.
Mig dreymir þig, svo lengi hjartað slær.
Og meðan húmið hylur allt sem grætur,
mín hugarrós á leiði þínu grær.
Þín kærleiksbros, þau aldrei, aldrei gleymast.
Þitt allt, þitt bænarmál og hvarms þíns tár.
Hvert bros, hvert orð, hvert armtak þitt skal geymast.
Þín ástarminning græðir lífs míns sár.

Ein friðarstjarna á fagurhimni glitrar,
eitt friðarblys í sölum uppheims skín.
Það veitir sælu og ró, er tárið titrar,
á tæru auga draums við náðarlín.
Þín ljúfa minning lifir mér í hjarta,
og ljóma slær á ævi minnar braut.
Ég á þig enn, svo fagra, blíða og bjarta,
og bíð sem fyrr við töfra þinna skaut.

Við ölduhljóm og óð frá unnarsölum,
í aftankyrrð ég tæmi harmsins skál.
Á meðan söngfugl sefur innst í dölum,
mér svalar hafsins þunga tregamál.
Úr heimsins fjarlægð aldnir berast ómar,
það allt sem var, er enn og verður til.
Svo lengi skapa eldsins ljóshaf ljómar,
er lífið allt ein heild með þáttaskil.

[m.a. á plötunni Alfreð Clausen – Manstu gamla daga]