Heimþrá

Heimþrá
Lag og texti: 12. september [Freymóður Jóhannsson]

Mig dreymir heim um dimmar, kaldar nætur,
mig dreymir heim til þín, ó móðir kær,
er hjarta þreytt í húmi dapurt grætur
og hníga tár, sem þú ein skilið fær.

Og þegar blessuð sólin, gegnum glugga,
með geislum sínum strýkur vanga minn,
mér finnst það vera hönd þín mig að hugga,
og hjartað öðlast ró við barminn þinn.

En sunnangestir sumarlandsins berast
á söngvavængjum norður bjartan geim,
og vinir fagna – vorsins undir gerast,
þá verður yndislegt að koma heim.

[m.a. á plötunni Erla Þorsteins – Stúlkan með lævirkjaröddina]