Hver er hvað

Hver er hvað
Lag og texti Hörður Torfason

Það er sjálfsagt fyrir þig að trúa því
að skrokkurinn er hún þar sem ég bý,
þú veist af eigin reynslu
að margt er þar til geymslu
enda er sólin ekki alltaf björt og hlý.
En er ég bestur – öðrum verstur eða hvað?
Lát mig heyra eitthvað meira – hvað er það?
Er ég lýtinn, talinn skrýtinn – eða hreinn og beinn?
Stend ég ekki einn?

Það er margt í þessum heimi – trúðu mér
en uppeldið sem þú hlýtur varnar þér,
að horfa á margar hliðar
því siðferði þitt og gliðnar
ef þú lítur á þá hlið sem engin sér.
En ertu bestur – öðrum verstur, eða hvað?
Viltu heyra eitthvað meira – hvað er það?
Ertu lýtinn – talinn skrýtinn – eða ertu hreinn og beinn?
Stendurðu ekki einn?

Við erum eins og sniglar með sín hús,
þekkjum aðeins þá sem við bjóðum dús
en ég sver við alla guði
að í þessu striti og puði
er gott að setjast niður og tralla blús.
Því hver er bestur – öðrum verstur – og svo hvað?
Hver má heyra eitthvað meira – og hvað er það?
Hver er lýtinn – talinn skrýtinn – hver er hreinn og beinn?
Hver stendur ekki einn?

Því skaltu hafa í huga heillaráð:
Það getur enginn aleinn marki náð,
með öðrum skaltu deila
því sem býr í þínum heila,
það hlýtur að vera betra ef grannt er gáð.
því sértu bestur – öðrum verstur – þá er hvað?
Nú skaltu heyra eitthvað meira – hér kemur það:
Sértu lýtinn – talinn skrýtinn – jafnframt hreinn og beinn
þá stendurðu ekki einn.

[af plötunni Hörður Torfason – Dægradvöl]