Nýjar rósir

Nýjar rósir
(Lag og texti Hörður Torfa)

Rósirnar á borðinu eru að falla og deyja.
Ég sit hér einn við símann og þegi.
Þori ekki að hringja í þig til að segja;
Ég elska þig og sakna þín á hverjum degi.

Árin sem við áttum saman liðu of fljótt
þó ekki hafi allt verið gleði og hlátur.
Síðan þú fórst er allt orðið autt og hljótt.
Óvænt og allt í einu setur að mér grátur.

Þú ert skrautlegt lítið fiðrildi sem flýgur um.
“Fyrirgefðu” segir þú og svífur.
“Englabossi” það er ég, á kvöldunum.
Þú veist að þetta er bragð sem á mig hrífur.

Ég get ekki samþykkt að þú veljir þér annan mann,
það veldur mér meiri sársauka en ég fær skilið.
Ég horfi á gamlar myndir af okkur sem ég fann
og hef einsett mér að finna leið til að brúa bilið.

Ég kaupi nýjar rósir og sendi þér.
Fleygi þeim sem visna hér á borðinu.
Þú lætur frá þér heyra og segir mér,
hvenær þú komir til baka og ég tek þig á orðinu.

[af plötunni Hörður Torfa – Tabú]