Sautjándi júní sjötíu og tvö

Sautjándi júní sjötíu og tvö [17-6 ’72]
Lag og texti Hörður Torfason

Þann sautjánda júní sjötíu og tvö
sat norðurljósanna sonur
umvafinn ilmi heims og hafanna sjö
og hugsaði aðeins um konur.
Hann skynjaði að veraldarólánið var;
vizka á stærð við barnsfingur
og marglitir tvíeggja duttlungar
voru mannlífsins eilífi hringur.

Í musteri alheimsins örsmáu fór
skapandi andi um sviðið,
söng á við stærsta karlakór
og kyssti allt meyjaliðið.
Einsetumennirnir drógust í hóp
og burstuðu af sér rykið.
Meistaraverkið sem maðurinn skóp
mærðarfullt varð fyrir vikið.

Sjövídda eilífðin brosti í takt
við sjóndeildarhringsins speki.
Lögmál heimsins var bara skakkt
en hver er þá dólgurinn seki?
Lífið er; já, nei, jú, víst og jæja í senn,
jarðgæskan kenningar setur
í fávita, ofvita, skepnur og menn
svo afkastar hver sem hann getur.

[af plötunni Hörður Torfason – Dægradvöl]