Múlinn [félagsskapur] (1997-)

Aðstandendur Múlans ásamt Jóni Múla Árnasyni (sitjandi)

Djassklúbburinn Múlinn hefur starfað síðan á síðustu öld og staðið fyrir ýmsum uppákomum í formi tónleika á þeim tíma. Tvennt hefur einkennt starfið, annars vegar að erfitt hefur reynst að halda uppi föstum viðburðakvöldum, og hins vegar að klúbburinn hefur verið í húsnæðishrakhólum með starfsemi sína. Síðustu árin hefur þó horft til betri vegar í þeim efnum. Múlinn hefur reyndar ekki starfað alveg samfleytt en hann er þó orðinn langlífasti klúbbur sinnar tegundar á Íslandi.

Múlinn var stofnaður í febrúar 1997 en þá hafði staðið yfir undirbúningur í nokkurn tíma, um var að ræða samstarf milli djassdeildar Félags íslenskra hljómlistarmanna, og Heita pottsins (sem var djasstónlistarfélagsskapur) og meðal stofnmeðlima má nefna Ólaf Jónsson, Pétur Grétarsson, Jón Kaldal og Tómas R. Einarsson. Nafn klúbbinn á sér augljósa skírskotun í Jón Múla Árnason útvarpsþul og dagskrárgerðarmann hjá Ríkisútvarpinu en hann hafði m.a. kynnt íslenskum útvarpshlustendum djasstónlistina og séð um djassþætti í útvarpinu til margra ára. Jón Múli var jafnframt gerður að verndara klúbbsins og síðan heiðursfélaga.

Fyrstu djasstónleikarnir á vegum Múlans voru haldnir í febrúar 1997 og voru föstudagskvöldin í upphafi tónleikakvöld klúbbsins, það átti eftir að breytast ótal sinnum og líklega hafa öll kvöld vikunnar einhvern tímann verið helguð starfsemi hans – fimmtudags- og sunnudagskvöld þó líklega oftast. Slík kvöld voru af alls kyns tagi, algengast var að gamlir standardar væri uppistaðan í prógrammi djasssveita en einnig var frumsaminn djass fluttur, þá voru jam session algeng sem og spunatónlist. Útgáfutónleikar hafa ennfremur verið meðal viðburða.

Frá jazzkvöldi í Múlanum

Fyrst um sinn hélt klúbburinn til á Jómfrúnni við Lækjargötu en um áramótin 1997-98 flutti hann sig yfir á veitingahúsið Sólon þar sem hann hafði aðsetur næstu misserin. Haustið 2000 tók Kaffi Reykjavík við og þar var Múlinn í um ár áður en hann flutti sig aftur á Sólon, síðan tóku við koll af kolli, Kaffileikhúsið í Hlaðvarpanum við Vestugötu, Kaffi Reykjavík aftur og síðan Gyllti salur á Hótel Borg árið 2004 þar til Leikhúskjallarinn tók við haustið 2005. Þar var klúbburinn þar til starfsemin fluttist í kjallarann á Domo bar við Þingholtsstræti 2006 þar sem hún var nokkuð öflug um tíma, þá var Múlinn um skamman tíma á Cafe Rosenberg við Klapparstíg og síðan Cafe Cultura (Kúltúra) á Hverfisgötu og svo á sama stað undir nafninu Bar 11 í nokkrar vikur áður en hann fluttist í Risið í Tryggvagötu (áður Glaumbar). Árið 2011 stóð Múlinn fyrir tónleikaröð í Norræna húsinu og var þar síðan áfram, m.a. í samstarfi við Jazzhátíð í Reykjavík með styrk frá Reykjavíkurborg og fleiri aðilum en frá árinu 2013 hefur klúbburinn haft tónleika sína í tónlistarhúsinu Hörpunni, yfirleitt í Björtuloftum. Erfitt er að segja til um hversu margar uppákomur Múlinn hefur haldið utan um frá upphafi en þær eru þó líklega ekki færri en þrjú hundruð talsins.

Múlinn lifir ágætu lífi í dag og hefur fest sig rækilega í sessi meðal djassáhugamanna á Íslandi en hann má klárlega þakka starfi Jóns Múla Árnasonar. Þess má geta að tónleikaröð Múlans var kjörin tónlistarviðburður ársins 2018 á Íslensku tónlistarverðlaununum.