Gaukur á Stöng [tónlistartengdur staður] (1983-)

Gaukurinn við Tryggvagötu

Veitinga- og skemmtistaðurinn Gaukur á Stöng við Tryggvagötu 22 (oftast nefndur Gaukurinn manna í millum) er einn langlífasti staður sinnar tegundar hérlendis og var fyrsta kráin sem hér var opnuð. Saga Gauksins er samofin sögu bjórlíkisins svokallað og bjórsins en einnig var staðurinn um tíma eins konar félagsmiðstöð poppara og þar blómstraði lifandi tónlist um árabil – og gerir reyndar ennþá.

Gaukur á Stöng (nefndur eftir Gauki Trandilssyni sem bjó á Stöng í Þjórsárdal á 10. öld)  var opnaður í nóvember 1983 en þá hafði staðið yfir undirbúningur að opnun hans frá því í upphafi ársins, það voru fimm ungir menn nýkomnir úr námi á meginlandi Evrópu sem stofnuðu fyrirtækið utan um Gaukinn og réðu síðan í starf framkvæmdastjóra Guðvarð Gíslason (sem síðar var aldrei kallaður neitt annað en Guffi á Gauknum), meðal annarra rekstraraðila síðar kennda við Gaukinn má nefna Úlla á Gauknum, Úlfar Inga Þórðarson.

Hugmyndina fengu fimmmenningarnir á námsárum sínum en þeim fannst tilfinnanlega vanta hér kráamenningu eins og hún þekktist í mið-Evrópu. Stóri gallinn í þessu samhengi var reyndar að hér var enginn bjór leyfður og því tóku þeir á það ráð eins og reyndar fáeinir aðilar voru þá byrjaðir að gera í Reykjavík (og Sauðárkróki af öllum stöðum), að blanda drykk sem gekk síðan undir nafninu bjórlíki en hann samanstóð af pilsner, vodka, Kláravíni og maltviskíi þannig að úr varð drykkur sem hafði um fimm prósent áfengisstyrkleika sem afgreiddur var af krana líkt og bjór. Misjafnt var eftir stöðum hvernig bjórlíkið var blandað.

Húsið við upphaf framkvæmda

Húsnæði Gauksins er á horni Tryggvagötu og Naustarinnar og það var illa farið þegar fimmenningarnir hófust handa við að breyta því, þetta hafði á einhverjum tímapunkti verið fiskverkunarhús, netagerð og fleira en hafði hýst kaffistofu Eimskipa undir það síðasta. Húsið var á tveimur hæðum, félagarnir létu innrétta það að hætti þýskra kráa og þegar Gaukurinn var opnaður um haustið 1983 varð þar troðfullt frá fyrsta degi, bæði í hádeginu og á kvöldin. Í fyrstu var aðeins neðri hæðin opnuð en þegar framkvæmdum lauk sumarið 1984 á þeirri efri opnaði þar líka.

Gaukurinn var í byrjun fyrst og fremst matsölu- og veitingastaður með evrópsku yfirbragði sem seldi drykki „sem minnir á bjór“ eins og einn viðskiptavinur sagði í blaðaviðtali, og fljótlega þurfti að ráða dyraverði á staðinn til að stýra mannfjöldanum innandyra en hann hafði þá leyfi fyrir um hundrað manns. Gaukurinn var fyrsta „bjórkrá“ landsins en fljótlega upp úr því spruttu fleiri sambærilegir staðir eins og gorkúlur í miðborginni, þannig að staðurinn varð eins konar frumkvöðull í kráarmenningunni hérlendis. Bjórlíkið fékk reyndar ekki að vera í friði fyrir hinu opinbera og brátt var það bannað haustið 1985 á þeim forsendum að bjórlíki mætti ekki blanda nema fyrir framan viðskiptavininn. Bjórlíkinu varð því sjálfhætt en það dró ekkert úr vinsældum staðarins og 1. mars 1989 var bjórinn að lokum leyfður á Íslandi, þá höfðu menn pantað borð á Gauknum mörgum mánuðum fyrr fyrir bjórdaginn svokallaða.

Unnið við húsið 1983

Gaukur á Stöng var ekki einvörðungu bjórkrá því þar voru haldnar hvers kyns uppákomur s.s. í formi matar- og vínkynninga, vörukynninga, brandarakeppna og svokallaðra þjóðfélagsumræða en það síðast nefnda voru hálfgerðir borgarafundir haldnir á sunnudagseftirmiðdögum þar sem haldin var forsaga um tiltekin mál og umræður í kjölfarið, þangað mættu ýmsir framámenn og stjórnmálamenn og svöruðu fyrirspurnum.

En tónlistin varð fljótlega aðalatriðið á Gauki á Stöng og staðurinn varð aðalvettvangur lifandi tónlistar í bænum. Fyrst í stað var tónlistin í anda þess sem staðurinn stóð fyrir, þjóðlagakennd kráartónlist án þess að ætlast væri til að fólk dansaði enda ekkert dansgólft í upphafi, síðar breyttist og þróaðist tónlistin smám saman og var ákveðinn vendipunktur í því þegar svokölluð Lennon kvöld voru þar haldin 1986 en þar má segja að hljómsveitin Bítlavinafélagið hafi orðið til. Fljótlega eftir það var farið að bjóða upp á lifandi tónlist fimm kvöld vikunnar og margar hljómsveitir urðu þar eins konar húshljómsveitir, Loðin rotta, Sálin hans Jóns míns, Sniglabandið, Mikki refur, Tríó Jóns Leifssonar, Skítamórall, Írafár, Buttercup og margar fleiri geta talist til slíkra sveita. Um tíma var meira að segja talað um Gaukinn sem eins konar félagsmiðstöð poppara. Tónlistin hin allra síðustu ár hefur verið nokkuð harðari þar sem sveitir sem þar hafa troðið upp eru í rokkaðri kantinum.

Gaukur á Stöng hefur gengið í gegnum hæðir og lægðir síðustu áratugina, staðurinn gekk í gegnum miklar endurbætur og breytingar upp úr aldamótum og í kjölfarið á því varð reksturinn erfiðari, hann hefur jafnframt gengið í gegnum mannabreytingar, gekk t.a.m. undir nafninu Sódóma Reykjavík um tíma en hefur frá árinu 2011 aftur gengið undir nafninu Gaukur á Stöng og haft lifandi tónlist að leiðarljósi.