Gaukur á Stöng [tónlistarviðburður] (1983-87)

Frá Gauknum ´86

Útihátíðin Gaukur á Stöng (Gaukurinn) var haldin í nokkur skipti í Þjórsárdalnum um verslunarmannahelgar á níunda áratug síðustu aldar og voru margar af vinsælustu hljómsveitum og tónlistarmönnum landsins meðal skemmtiatriða á henni, þeirra á meðal má nefna Bubba Morthens, Skriðjökla, Bjarna Tryggva, HLH-flokkinn, Kikk og Baraflokkinn en einnig má geta þess að hljómsveitin Lótus var eina sveitin sem lék á öllum hátíðunum.

Hátíðin sem var haldin á vegum Héraðssambands Skarphéðins (HSK), var fyrst haldin um verslunarmannahelgina 1983 og mættu þá um þrjú þúsund manns á hátíðina, sem þótti meira en nóg til að halda aðra hátíð að ári. Gaukurinn var því haldin næstu árin eða allt til 1987 en þá mættu einungis fáein hundruð manna og varð að blása hátíðina af með margra milljóna króna tapi. Því tapi var síðan mætt með stórtónleikum sem HSK stóð fyrir í Kerinu í Grímsnesi fáeinum vikum síðar (16. ágúst) en þangað mættu um sjö þúsund manns í blíðskaparveðri.

Gauks-hátíðin var ekki haldin aftur eftir þetta.