Heill þér, vor!

Heill þér, vor!
(Lag / texti: erlent lag (Nú geng ég með á gleðifund) / Stefán frá Hvítadal)

Ó, vor mér reyndist vakan köld
er vetrarnóttin bjó um sig.
Því skammdegi og skuggavöld
þau skelfa jafnan mig.
Ég fagna dreymdri sólarsýn,
er sveipar jörðu fannalín.
Það leitaði hver löngun mín,
er liðu jól, til þín.
Er útmánuður sólu sér,
að sumri glöðu halla fer.
Heill þér, vor! Heill þér, sól!
Gjöful stund! Gróðrartíð!
Þér fagnar æska fríð.

Hve útmánaðabatinn brást,
því bylinn sjaldan geisli rauf
og jafnvel þegar sólin sást
hún sýndist föl og dauf.
Og einmánuður ísinn hlóð,
og inni döpur hjörðin stóð.
Þá gekk í bæinn harpa hljóð
og hún var öllum góð.
Hve lífið fékk þá frjálsan brag
hinn fyrsta, þráða sumardag.
Heill þér, vor! Heill þér, sól!
Gjöful stund! Gróðrartíð,
þér fagnar æska fríð.

Nú glaðnar yfir hljóðri hlíð
og hugljúf gleði fyllir mig.
Nú blána hvolf og verða víð.
Ó, vor ég hylli þig!
Því sólin ein með vissu veit
hve von  mín örugg býst í leit.
Er birti yfir breiðri sveit,
hve bros mín urðu heit.
Nú leggur þrá mín úthöf á
með ylinn glöðu vori frá.
Heill þér, vor! Heill þér, sól!
Æskuþrá ung og heið,
nú opnast úthöf breið.

[óútgefið]