Kerlingarvísa

Kerlingarvísa (úr revíunni Upplyfting)
(Lag / texti: erlent lag / Haraldur Á. Sigurðsson)

Ég var um aldamótin
svo upplögð fyrir glens og grín
og gaf þeim undir fótinn,
sem gægðust inn til mín.
Og þá, og þá var straumurinn af strákunum,
af Stebbum, Jónum, Lákunum,
sem vildu’ ég væri sín.

Ég elskaði alla saman,
en aldrei hlaust neitt slys af því
og voða var það gaman
að vera frjáls og frí.
Því þá, því þá var sandur til af sjönsunum
á Seltjarnarnesdönsunum
með söng og hopp og hí.

Eitt kvöld kom Bjössi á Bakka,
svo bauð ég honum upp á kvist.
Með honum átti ég krakka
í tveggja manna vist.
En hann, en hann stakk af frá hjónabandinu
og strauk svo burt af landinu,
við höfum ei síðan hist.

Ég giftist Gústa á Sandi,
það grey var alltaf úti á sjó.
Og hann kom ekki að landi
fyrr en haustið sem hann dó.
En þó, en þó áttum við þríbura
og þrisvar sinnum tvíbura.
Þá varð mér um og ó.

Enn er ég ung í anda,
hef ánægju af Bjarna Bö.
og læt ekki’ á mér standa,
þó ég sé sjötíu og sjö.
En ef, en ef þú leiður ert á lífinu,
þá labbaðu við hjá vífinu
í Skálkaskjóli 2.

[af plötunni Diddú og Egill – Þegar mamma var ung]