Konuvísur

Konuvísur
(Lag / texti: erlent lag / Ingimundur (duln.))

Þó konum sínum hafi karlmenn gaman af,
sem kannske er nú einna mest fyrir framan af,
þá leiðist þeim þær stundum, þó ljótt sé að segja frá,
og langar oftast nær og mest í annarra konur þá.
En þess háttar enginn maður má,
það myndast svo ákaft slaður þá,
og eiginmennirnir erta þær,
ef aðrir karlmenn snerta þær.
Það er síður en svo við hinir megum snerta þær.

Nei, upp á milli hjóna má ei sletta sér,
það er svei mér best að pukra vel með þetta hér,
því annars getur kannske skeð að bóndinn komist að,
að konan hans sé ekki beint alveg á réttum stað.
Því það er mikill munur á,
að manni hvíli grunur á,
en konan má þeygi þvaðra við
þá sem hún er að daðra við.
Nei, þess konar má aðeins vera á aðra hlið.

Það væri eflaust hentugast að hafa það
hérna, eins og Grænlendingar fara að,
þegar konugarmurinn þeim loksins leiðast fer,
þeir leggja af stað með hana út í hvað sem fyrir er.
Þau fara yfir freðinn snæ,
sem fljótast heim á næsta bæ,
því brjóstin eru í blossum þar,
og búast má við kossum þar.
Þeir hafa býtti á konum eins og hrossum þar.

Og þess vegna er húsbóndinn á hjólunum,
og heimtar að sé lagað strax í bólunum,
óðara til sætis þar hann býður báðum tveim
og biður konu sína að setjast dáldið nálægt þeim.
Og svo hafa þessir karlar kaup
á konum, og brúka skjall og raup,
þeir segja það verði vafalaust
að vera milligjafarlaust.
En um að gera það sé alveg tafarlaust.

Og konurnar fá líka þessa kóna á rand,
þær kunna ósköp vel við svona hjónaband,
þær hendast eins og kólfi væri skotið bæ frá bæ,
og brölta svo að furðu gegnir yfir ís og snæ.
Þær ganga líka allar út,
frá Úninúk til Ívígtút,
það væri líka að smána þær
að vilja ekki lána þær,
sú er víst bág, sem ekki í einhvern bjána nær.

Já, svona er þar en hérna eitthvað annað er,
eins og slíkt sé kannske ekki bannað hér,
jú, ég held nú síður, að maður megi það,
já, merkilegt er lífið, það er von ég segi það.
Því er nú verið að meina mér
að manga til við eina hér.
Það færi eflaust faglega
að fá sér aðra laglega,
ég held sé skást að hafa býtti daglega.

[m.a. á plötunni Bjarni Björnsson – Gamlar minningar 2]