Nikkólína

Nikkólína
(Lag / texti: erlent lag / Ingimundur (duln.))

Nikkólína hún var átján ára, ættuð að ég veit,
á að giska svona einhvers staðar on úr Mosfellsveit,
hún var saklaus bæði og siðug vel og sæmilega feit,
og svo var hún líka reflareinin rjóð og búlduleit.

Hún Nikkólína nam hér snemma aðferðina sína.
Hún Nikkólína, það var stúlka fær í flestan sjó, meira en nóg.

Þegar Nikkólína að heiman hélt og hingað suðrí Vík,
búin út með ágætt nesti nóg og nýja hverja flík,
hennar gamla móðir, Magdalena, máls og kunni skil,
þessum hérna alvarlegu orðum inna nam hún til:

Ó, Nikkólína, þú mátt náttúrlega passa engu’ að týna.
Ó, Nikkólína, hrasaðu ekki um koll í heimsins soll – mundu það það!

Nikkólína komst í valda vist og vel á öllu fór,
alla daga daga hún þvoði og þrælaði, já það var ekkert slór
en hún fór alltaf snemma að sofa, ekki seinna en níu og hálf,
Nikkólína sagði nefnilega: nóttina á ég sjálf.

Hún Nikkólína, notaði vel frítímana sína.
Hún Nikkólína, hún var ekki að strunsa um borg og bý, fjarri því.

Mörgum piltum þótti Lína litla laglegasta fljóð,
og þeir vildu allir fegnir fá að faðma’ hið unga jóð,
fyrir utan húsið oft á kvöldin einhver þeirra beið,
reyndi’ að heilla fagra snót með svásum söng á þessa leið:

Ó, Nikkólína, neitaðu mér ekki’ um elsku þína,
opnaðu Lína, svo ég geti beðið þín, ástin mín undireins.

Það var engin furða að Lína lyfti á hurðu ranns,
biðlar eru ekki að koma á hverju kvöldi heim til manns,
og til þess að ei með brotin bökin burtu færu þeir,
allir fengu þetta einn, tvo kossa og ósköp lítið meir.

Hún Nikkólína kallaði þá kærastana sína,
og Nikkólína elskaði þá bæði ljóst og leynt – alla hreint.

En því ver og miður verð ég nú að vekja slæman grun,
veslings Lína hún varð loksins fyrir ljótri trúlofun,
vegna þess að hún var ung og óreynd og ei skyn á bar,
að miklu betri er eiginmaður einn en ótal kærastar.

Ó Nikkólína, illa fór um aðferðina þína,
aðvörun Lína, er hún fyrir allar stúlkur hér, því er ver.

Nikkólína fór með blessað barnið burt úr Vík og heim,
margt af pöbbunum hún sagði slæmt til svívirðingar þeim,
hvernig vænstu stúlkur véli þessi voðalegu svín,
og að best sé ekki að bjóða neinum biðlum inn til sín.

Hún Nikkólína kyssti’ of mikið kærastana sína.
Vesalings Lína gerir þennan skratta oftar ei – sei, sei, sei.

[m.a. á plötunni Savanna tríóið – Skemmtilegustu lög Savanna tríósins]