Gunnar Salvarsson (1953-)

Gunnar Salvarsson

Gunnar Salvarsson fjölmiðlamaður var um árabil einn þekktasti poppskríbent íslenskra fjölmiðla en hann ritaði um popptónlist í dagblöðum og sá um vinsæla tónlistarþætti í útvarpi.

Gunnar (f. 1953) er menntaður kennari og á námsárum sínum hóf hann að rita í dagblöðin, hann var lengst af blaðamaður á Tímanum og Vísi og skrifaði þá um popptónlist bæði íslenska og erlenda, hann ritstýrði einnig um skamman tíma tímariti um popptónlist en það bar heitið Poppblaðið. Seint á áttunda áratugnum hóf hann að starfa við Ríkisútvarpið og hélt þá utan um fjölda tónlistartengdra þátta, vinsælastir og langlífastir voru þættirnir Listapopp, Nýtt undir nálinni og Nú er lag, síðar starfaði hann einnig á fréttastofu útvarps og sjónvarps, og hefur reyndar líka stjórnað tónlistarþáttum í sjónvarpinu.

Gunnar hefur komið að fleiri hliðum tónlistarinnar, hann var meðal leikenda í söngleiknum Jesús Kristur súperstar sem settur var á fjalirnar 1973 og þá samdi hann einhverja texta sem komu út á plötum Borgís og Paradís um miðjan áttunda áratuginn.

Hann hefur hin síðari ár starfað á annars konar vettvangi fjölmiðla, starfað sem fjölmiðlafulltrúi, ljósmyndari o.fl.