Göróttu gyðjurnar [félagsskapur] (1992-)

Göróttu gyðjurnar

Fáar heimildir finnast um félagsskapinn Göróttu gyðjurnar en hann samanstendur af söngkonum sem hafa hist til að ræða málin og skemmta sér, eins og segir í viðtali.

Heimildum ber ekki alveg saman um hvenær Göróttu gyðjurnar voru stofnaðar, ýmist er það sagt hafa verið á árshátíð FÍH árið 1992 eða ári síðar en stofnfélagar voru sjö og á ýmsum aldri. Meðlimum fjölgaði síðan nokkuð og voru orðnar um tuttugu talsins af því virðist en ekki liggur fyrir hvort félagsskapurinn er ennþá virkur, síðustu heimildir um tilurð þeirra eru síðan 2011.

Markmið Göróttu gyðjanna hefur verið að hittast, deila reynslu og spjalla en einnig til að skemmta sér saman, þær hafa einnig komið fram opinberlega með söng t.a.m. í tengslum við góðgerðarmál. Meðal söngkvenna í hópnum má nefna Andreu Gylfadóttur, Ruth Reginalds, Margréti Eir, Ellenu Kristjánsdóttur, Selmu Björnsdóttur, Sigríði Beinteinsdóttur, Regínu Ósk Óskarsdóttur, Ernu Þórarinsdóttur, Helgu Möller, Maríu Björk Sverrisdóttur o.fl.