The Gæs (1994-98)

The Gæs

Hljómsveitin The Gæs var nokkuð sérstök en hún var skipuð þekktum knattspyrnumönnum í Vestmannaeyjum sem þá léku í efstu deild.

Sveitin kom fyrst fram á lokahófi ÍBV haustið 1994 og voru meðlimir hennar þá Rútur Snorrason hljómborðsleikari, Heimir Hallgrímsson (síðar landsliðsþjálfari) trommuleikari, Sigurður Gylfason söngvari og gítarleikari og Steingrímur Jóhannesson bassaleikari.

The Gæs kom fram reglulega næstu árin og yfirleitt í tengslum við lokahóf knattspyrnumanna í Eyjum en einnig í lokahófi KSÍ haustið 1995, þá lék sveitin í nokkur skipti á almennum dansleikjum. Þær mannabreytingar urðu í sveitinni að þeir Ívar Bjarklind söngvari og gítarleikari og Leifur Geir Hafsteinsson gítarleikari komu í stað Sigurðar Gylfasonar.

Hæst reis frægðarsól sveitarinnar þegar hún kom fram í sjónvarpsþættinum Þeytingi árið 1996 en þar frumfluttu þeir félagar ÍBV-lagið Komum fagnandi (eftir Leif Geir) en það lag var síðar gefið út í nafni Ívars söngvara árið 1999 og naut töluverðra almennra vinsælda.

Eftir því sem næst verður komist kom The Gæs fram í síðasta skipti vorið 1998.