Ceilidh band Seyðisfjarðar (1998-2006)

Ceilidh band Seyðisfjarðar

Ceilidh band Seyðisfjarðar starfaði um nokkurra ára skeið í kringum síðustu aldamót en sveitin lék einkum keltnesk og norræn þjóðlög, eins og nafn sveitarinnar gefur til kynna starfaði hún á Seyðisfirði.

Það var Ethelwyn „Muff“ Worden sem hafði frumkvæði að stofnun sveitarinnar og var eins konar hljómsveitarstjóri en hún var tónlistarkennari og mikill hamhleypa í austfirsku tónlistarlífi, eitthvað var misjafnt hverjir skipuðu sveitina og á einhverjum tímapunkti voru Sigurður Hauksson gítarleikari, Guðni Sigmundsson bassaleikari, Eydís Bára Jóhannsdóttir söngkona, Sólrún Friðbergsdóttir ásláttarleikari og Kolbeinn Agnarsson trommuleikari í sveitinni. Einnig komu Árni Jón Sigurðsson harmonikkuleikari og Anna Lilja Karlsdóttir trompetleikari við sögu hennar, Muff Worden var þó alltaf það lím sem hélt sveitinni saman.

Ceilidh bandið var stofnað árið 1998, lék á fjölda tónleika austanlands og t.a.m. á sumartónleikum Bláu kirkjunnar, tónlistarhátíðar sem Muff hélt utan um, sveitin starfaði líklega til ársins 2006 en Muff lést þá um haustið.