Croisztans (1997-)

Croisztans

Hljómsveitin Croisztans er fjölþjóðleg sveit sem í gegnum tíðina hefur skartað fjölmörgum Íslendingum, sem hafa yfirleitt verið í meirihluta í sveitinni en mannabreytingar hafa verið tíðar í henni.

Croisztans var stofnuð snemma árs 1997 og hefur frá upphafi leikið eins konar þjóðlagapönk undir austur-evrópskum áhrifum, reyndar hefur sveitin kennt sig frá upphafi við úkraínskt fríríki og eru textar sveitarinnar margir hverjir á tilbúnu hrognamáli ættuðu þaðan.

Í upphafi var um að ræða sextett sem þau Finnbogi Hafþórsson gítarleikari, Þorbjörg Ása Kristinsdóttir bassaleikari, Sigurður Óli Pálmason söngvari, Páll Kristinsson ásláttarleikari, Christian Elgaard trommuleikari og Gwenn Houdry harmonikkuleikari skipuðu, þau tvö síðast töldu eru dönsk og frönsk.

Sveitin hóf fyrsta starfsumar sitt (1997) með tónleikaferð um Evrópu en kom síðan til Íslands um haustið og starfaði hér á landi veturinn 1997-98, annar og stærri sumarrúntur var farinn sumarið 1998 og eftir það hefur sveitin haft heimavöll og bækistöðvar í Kaupmannahöfn en komið af og til til Íslands til spilamennsku, m.a. á Iceland Airwaves í fáein skipti. Sveitin hefur ekki starfað alveg samfleytt og t.d. lá starfsemi hennar líklega alveg niðri á árunum 1999 til 2003 en þá var hún endurreist.

Croisztans árið 1998

Ekki liggur alveg fyrir hverjir skipuðu sveitina þegar hún var endurreist 2003 en nokkru síðar voru liðsmenn hennar sem fyrr Sigurður Óli söngvari, Páll ásláttarleikari og Christian trommuleikari sem nú lék einnig á bassa en í stað hinna þriggja voru komnir Eggert Steinsen harmonikku- og gítarleikari, Gunnar Guðmundsson trommu- og bassaleikari og Anders Sylvest Jensen bassaleikari sem er danskur. Jón Óskar Gíslason gítar- og mandólínleikari bættist svo í sveitina á einhverjum tímapunkti. Svo virðist sem enn fleiri breytingar á liðsskipan sveitarinnar hafi orðið í kringum 2011 og eftir það hafi þeir Sigurður Óli og Jón Þór verið einir eftir Íslendinga en aðrir meðlimir hennar verið danskir, fyrrnefndur Anders bassaleikari og svo Christian Viktor Rasmussen harmonikkuleikari, Emil Jacobi trommuleikari og Thomas [?] gítarleikari.

Croisztans sendi frá sér sína fyrstu plötu árið 1998, sjö laga skífu með handgerðu umslagi sem sveitin gaf sjálf út – reyndar rétt eins og aðrar plötur sínar. Næsta plata var demo-stuttskífa gefin út til dreifingar á Iceland Airwaves haustið 2005 en litlar upplýsingar er að finna um þá útgáfu. Tveimur árum síðar kom út tíu laga skífa sem bar titilinn Croi ir gne liberi en þetta mun einnig hafa verið eins konar demo-útgáfa með lögum frá ýmsum tímum, árið 2009 kom svo út tíu laga plata sem bar heitið Vodka. Croisztans vann að nýrri plötu árið 2011 en ekki finnast neinar upplýsingar um þá útgáfu eða aðrar sem sveitin gæti hafa sent frá sér.

Croisztans lifir enn ágætu lífi í Kaupmannahöfn eftir því sem best verður vitað, og ku vera nokkuð þekkt band í neðanjarðarsenunni í borginni.

Efni á plötum