
Finnur Torfi Stefánsson
Óhætt er að segja að leið Finns Torfa Stefánssonar liggi víða í tónlistlegu samhengi, í gegnum unglingsárin starfaði hann með gítar- og bítlasveitum, síðan tók hippatónlistin og proggið við áður en hann tók sér hlé frá tónlistinni til að sinna öðrum hlutum, en síðan nam hann tónfræði og tónsmíðar og hefur á síðari árum birst sem tónskáld í þyngri tónlist.
Finnur Torfi Stefánsson fæddist á Akranesi vorið 1947 en flutti með fjölskyldu sinni á höfuðborgarsvæðið barn að aldri. Hann lærði á píanó á æskuárum sínum en gítarinn varð þó ofan á og hann hóf að leika með fjölmörgum hljómsveitum á unglings aldri, á þessum mótunarárum sínum má segja að hann hafi fylgt straumum og stefnum í poppinu – fyrst með gítarsveitum í anda Shadows og síðan bítlasveitum en einnig lék hann í sveitum með sér eldri mönnum sem léku gömlu dansana og þess konar eldri tónlist. Þetta voru sveitir eins og Taktar, J.J. Quintet, Tónar, Tónabræður, 5-pence og Pónik sem hann lék mislengi með en svo þyngdist tónlist samhliða því sem hár þessarar kynslóðar síkkaði og þá varð hipparokkið til með sveitum eins og Personu og Rjóma.
Um þetta leyti var Finnur farinn að láta sig varða ýmis þjóðfélagsmál og eftir stúdentspróf fór hann í lögfræði í Háskóla Íslands og í stúdentapólitíkina, hann var mikið í þjóðfélagsumræðunni og eins konar talsmaður ungra jafnaðarmanna í ýmsum málefnum. Á háskólaárunum hóf hann að leika með Óðmönnum sem þá hafði verið endurreist eftir árshlé en gjörbreytt, í stað bítlarokks sem sveitin hafði spilaði áður var hún orðin að tríói sem lék proggkennt blúsrokk. Með sveitinni lék Finnur Torfi inn á tvær litlar plötur sem komu út 1970 og svo tóku þeir félagar þátt í uppfærslu á Poppleiknum Óla sem naut nokkurra vinsælda. Finnur Torfi hafði nú tæplega tíma fyrir hljómsveitabrölt þar sem hann hafði nóg að gera í námi sínu og stefndi aukinheldur á nám í stjórnmálafræði í London að því loknu. Svo fór að sveitin hætti störfum en náði að koma út fyrsta tvöfalda albúminu sem út kom á Íslandi, sem m.a. hafði að geyma tónlistina úr Poppleiknum Óla.
Á námsárum sínum í Bretlandi hætti Finnur Torfi afskiptum af tónlist í bili og sneri sér að öðru þegar heim var komið að því námi loknu en stjórnmálin tóku nú við, hann fór í framboð til alþingis og sat á alþingi fyrstur íslenskra poppara, fyrir alþýðuflokkinn á árunum 1978-79 og var einnig varaþingmaður um tíma síðar sem og varabæjarfulltrúi í Hafnarfirði, þá rak hann lögmannsstofu og starfaði við lögfræðistörf og m.a. hjá dómsmálaráðuneytinu. Hann sinnti einnig öðrum áhugamálum sínum af kostgæfni, hlaut t.d. flugmannsréttindi og var framarlega í samfélagi skútusiglingamanna, keppti t.d. á heimsmeistaramótinu í siglingum og var formaður Siglingasambandsins um hríð.

Finnur Torfi með gítar í hönd
Finnur Torfi hafði reyndar ekki alveg snúið baki við tónlistina á þessum árum, hann hafði stöku sinnum komið fram á djasskvöldum, m.a. í Djúpinu og svo var hann einn þeirra sem komu að stofnun SATT (Samtök alþýðutónskálda og tónlistarmanna) árið 1979 og starfaði um hríð sem framkvæmdastjóri FÍH og lögmaður félagsins, þá komu Óðmenn saman og léku á 50 ára afmæli FÍH og á SATT-kvöldi svo dæmi séu nefnd.
Um þrjátíu og fimm ára aldur hóf Finnur Torfi að snúa sér að tónlistinni aftur af fullum krafti þótt með öðrum hætti væri en áður, hann hóf að læra á fiðlu hjá Helgu Þórarinsdóttur mágkonu sinni, systur þáverandi eiginkonu hans – Eddu Þórarinsdóttur úr Þremur á palli, og um svipað leyti fór hann að læra tónfræði og tónsmíðar við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hann hafði nokkuð fengist við semja tónlist á Óðmanna-árum sínum en nú tóku við annars konar tónsmíðar og að námi loknu hér heima hleypti hann heimdraganum og hélt til Los Angeles þar sem hann fór í framhaldsnám í tónsmíðum, og dvaldi þar í um fjögur ár. Meðan á námi hans stóð voru nokkur verk flutt eftir hann á tónleikum ytra.
Finnur Torfi flutti með fjölskyldu sína heim í kringum 1990 og hér hóf hann að starfa meira við tónlist en áður hafði verið, auk þess að fást við tónsmíðar fékkst hann við skrif um tónlist fyrir DV og síðar Fréttablaðið og gerði það í mörg ár og annaðist einnig töluvert dagskrárgerð í útvarpi, sá t.a.m. um þáttinn Stefnumót hjá Ríkisútvarpinu en þar ræddi hann klassíska tónlist við þjóðþekkt fólk, auk þess kenndi hann um tíma við Tónlistarskólann í Reykjavík.
Tónlist Finns Torfa varð afar ólík þeirri sem hann hafði samið með Óðmönnum, verk fyrir stærri hljómsveitir urðu eins konar aðalsmerki hans og t.d. hefur hann samið a.m.k. sex stór sinfóníuverk, tónlist hans er þó af margvíslegum toga og má hér nefna verk fyrir sex blásturshljóðfæri, strengjakvartetta, kammertónlist, píanóverk, óperu, blásarakvintetta, kórverk, konserta fyrir fiðlu og önnur einleikshljóðfæri og sönglög en hann hefur jafnframt samið tónlist fyrir leikhús og útsett jafnvel fyrir popphljómsveitir. Fjölmargir aðilar hafa flutt tónlist hans á tónleikum og má þar nefna Caput-hópinn, Kammersveit Hafnarfjarðar og Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Finnur Torfi
Finnur Torfi hefur ekki farið varhluta af áföllum í lífinu en um miðjan tíunda áratuginn misstu þau hjónin nítján ára gamlan son sinn úr krabbameini en hann hét Fróði Finnsson og var efnilegur tónlistarmaður. Ýmsar breytingar urðu á lífi þeirra í kjölfarið og Finnur flutti upp í Borgarfjörð þar sem hann hefur búið og starfað síðan.
Það hefur minna farið fyrir honum og tónlistinni hin allra síðustu ár en snemma á öldinni komst verk hans (De Amore) í undanúrslit Masterprize, stórrar alþjóðlegrar tónlistarkeppni á vegum BBC en ríflega 1100 tónverk voru þar skráð til leiks. Þá hafa verk hans verið flutt á tónlistarhátíðum eins og Myrkum músíkdögum og við önnur tækifæri á síðustu árum.
Árið 2000 kom út plata með blandaðri tónlist eftir Finn undir nafninu Bylgjur í túninu. Á þeirri plötu var m.a. að finna þætti úr stærri verkum flutt af tónlistarfólki eins og Eþos kvartettnum, Caput-hópnum, Snorra Sigfúsi Birgissyni o.fl., platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu. Fleiri hafa flutt tónlist eftir hann á plötum, t.d. Duo Landon, Freyjukórinn o.fl. og svo er auðvitað að finna nokkur lög eftir hann á plötum Óðmanna.