
Lárus H. Grímsson
Í dag eru þrír tónlistarmenn á skrá Glatkistunnar sem eiga afmæli:
Lárus Halldór Grímsson tónskáld, hljómsveitastjórnandi og hljómborðs- og flautuleikari er sextíu og sex ára á þessum degi. Hann nam hér heim og í Hollandi, lék með mörgum hljómsveitum hér á árum áður s.s. Sjálfsmorðssveit Megasar, Súld, Með nöktum, Þokkabót, Eik og Deildarbungubræðrum og lék þ.a.l. á plötum þeirra og margra annarra líka. Lárus hefur einnig gefið út nokkrar sólóplötur og er líklega þekktust þeirra platan Hringurinn sem kom út 1986. Hann hefur einnig stýrt lúðrasveitum eins og Lúðrasveit Reykjavíkur o.fl.
Lísa Pálsdóttir söng-, leik- og dagskrárgerðarkona er sextíu og sjö ára gömul, hún hefur í lengi starfað við dagskrárgerð hjá Ríkisútvarpinu en söng hér fyrr með hljómsveitinni Kamarorghestum, sem starfaði mestmegnis í Kaupmannahöfn. Einnig hefur hún sungið með hljómsveitunum Sköpum og Slow-Beatles.
Tónlistarkonan Unnur Sara Eldjárn á svo tuttugu og átta ára afmæli í dag. Þrátt fyrir fremur ungan aldur hefur Unnur Sara komið nokkuð víða við í tónlistinni, var t.a.m. í hljómsveitunum Litla lampanum og Líparít og söngkvartettnum Fushigi four. Hún útskrifaðist frá tónlistarskóla FÍH 2015 og hefur sent frá sér sólóplötur.
Vissir þú að söngkonan Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir er dóttir Labba í Mánum (Ólafs Þórarinssonar)?