Sandlóurnar (1987-2006)

Sandlóurnar

Sönghópurinn Sandlóur eða Sandlóurnar eins og hann var iðulega kallaður var ekki eiginlegur kór þótt hann tengdist Karlakórnum Lóuþrælnum, um var að ræða sönghóp maka Lóuþrælanna sem oft kom fram ásamt karlakórnum.

Vestur-húnvetnski karlakórinn Lóuþrælar hafði verið starfandi í um tvö ár árið 1987 þegar nokkrir makar meðlima kórsins stofnuðu sönghóp sem þær kölluðu Sandlóurnar, ekki voru allir makarnir með í hópnum en í upphafi voru þær átta talsins og voru iðulega á bilinu átta til sextán í hópnum.

Sandlóurnar hófu fljótlega að koma fram á tónleikum með Lóuþrælunum en héldu líklega aldrei sjálfstæða tónleika sjálfar enda litu þær fremur á sig sem sönghóp, skemmtikrafta til að brjóta upp tónleikana hjá karlakórnum, Ólöf Pálsdóttir stjórnandi karlakórsins sá um að stjórna Sandlóunum og oft komu þær fram með harmonikkuleikarann Þorvald Pálsson (bróður Ólafar) sér til fulltingis. Söngprógramm þeirra kvenna var í öllu léttari kantinum en karlakórinn bauð upp á og var á sínum tíma skilgreint sem rútubílatónlist, líklega er þó ekki hægt að taka svo djúpt í árinni.

Sandlóur 1995

Kórarnir sem áttu heimavöll sinn á Hvammstanga héldu árlega árshátíð eða tónleika þar sem þeir skemmtu saman og fengu þá yfirleitt þriðja kór í heimsókn en það var misjafnt hvaða kór átti þar í hlut, Sandlóurnar fylgdu svo sem fyrr segir Lóuþrælunum á tónleikahaldi þeirra og sungu víða um landið, m.a. í nokkur skipti á höfuðborgarsvæðinu. Sandlóurnar gáfu árið 2002 út plötu ásamt Lóuþrælunum og hlaut sú plata nafnið Húmljóð, þar syngja konurnar sjö lög.

Árið 2003 tók nýr stjórnandi, Guðmundur St. Sigurðsson við söngstjórn Lóuþrælanna og um leið Sandlóanna en sönghópurinn starfaði undir hans stjórn til ársins 2006 af því er virðist.

Sandlóurnar hafa líklega einu sinni komið fram eftir að þær hættu, á harmonikkuhátíð í Miðfirði sumarið 2015 þar sem þær tróðu óvænt upp við undirleik Þorvaldar harmonikkuleikara.

Efni á plötum