Hljómsveitin Sexual mutilations starfaði líkast til á árunum 1991 (hugsanlega stofnuð 1992) til 1993 og spilaði grindcore rokk í anda sveita eins og Napalm death o.fl.
Sexual mutilations var ein af fjölmörgum sveitum sem léku á rokktónleikum í Faxaskála sumarið 1993 en þeir voru á vegum óháðu listahátíðarinnar Ólétt ´93, það ár virðist sveitin hafa verið virkust en hún lék þá á nokkrum tónleikum s.s. í félagsmiðstöðinni Hólmaseli í Seljahverfi o.fl.
Upphaflega voru í sveitinni þeir Sigtryggur Berg Sigmarsson söngvari (sem gjarnan er kenndur við Stilluppsteypu), Arnþór Guðlaugsson gítarleikari og Halldór Einarsson trommuleikari en árið 1993 kom Aðalbjörn Tryggvason bassaleikari inn í sveitina, sem fram að því hafði verið bassaleikaralaus.
Aðalbjörn og Halldór áttu svo síðar eftir að stofna Sólstafi.














































