Sigurður Sigurðarson (1939-)

Sigurður Sigurðarson

Sigurður Sigurðarson fyrrverandi dýralæknir (fæddur 1939 í Bárðardal) er líkast til þekktastur fyrir framlag sitt til sauðfjárveikivarna og fyrir að staðsetja og merkja miltisbrandsgrafir um land allt en hann hefur einnig stuðlað að varðveislu rímna og annars kveðskaps og jafnframt gefið út plötu með frumsömdu efni.

Sigurður hefur staðið í fremstu röð rímnaáhugafólks í Kvæðamannafélaginu Iðunni síðan við lok níunda áratugarins, verið þar virkur um árabil og jafnvel stofnað eins konar útibú frá því, Árgala sem er kvæðamannfélag staðsett í Árborg en Sigurður hefur á efri árum verið búsettur á Selfossi. Sigurður hefur margsinnis komið fram á samkomum tengdum þessum félagsskap, kveðið rímur og stuðlað að varðveislu og útbreiðslu þeirra. Á Selfossi hefur hann jafnframt sungið með Hörpu, kór eldri borgara.

Sjálfur hefur Sigurður þótt ágætur hagyrðingur og hefur samið texta og lög alla ævi, og árið 2018 kom út tvöföld plata með frumsömdu efni eftir hann – alls sextíu lög samin á jafnmörgum árum en megnið af textunum eru ortir af honum sjálfum einnig. Á plötunni, sem ber hinn langa titil Lífslög Sigurðar dýralæknir í 60 ár, 1958-2018 …og landslið söngvara, koma 28 einsöngvarar við sögu, þeir eru misþekktir og á ýmsum aldri en þeir voru á aldrinum 11 ára til ríflega 100 ára. Hér má t.d. nefna nokkur þekkt nöfn eins og Álftagerðisbræður, Diddú, Signý Sæmundsdóttur, Gissur Pál Gissurarson, Bergþór Pálsson og Þuríði Sigurðardóttur. Karl Þór Þorvaldsson annaðist upptökurnar að mestu en þær fóru mestmegnis fram á Selfossi. Sigurður syngur ekki sjálfur á Lífslögum sínum en hins vegar má heyra hann kveða rímur á smáskífunni Rímur ásamt Steindóri Andersen og Sigur rós (2001) og plötunni Rímur og rapp (2002).

Árið 2011 kom út ævisaga Sigurðar Sigurðarsonar, sem ber titilinn Sigurður dýralæknir og þremur árum síðar kom út annað bindi þeirrar sögu, þá hefur einnig komið út bókin Sigurðar sögur dýralæknis (2016).

Efni á plötum