Sigurður Sigurjónsson (1955-)

Sigurður Sigurjónsson

Allir þekkja nafn leikarans Sigurðar Sigurjónssonar en hann er meðal ástsælustu leikara Íslandssögunnar og hefur leikið á sviði leikhúsanna, í kvikmyndum og síðast en ekki síst í sjónvarpi og útvarpi þar sem hann var meðal Spaugstofumanna sem nutu mikilla vinsælda.

Sigurður er fæddur í Hafnarfirði 1955 og lauk námi í leiklist við Leiklistarskóla Íslands 1976. Hann hefur verið með fastráðningu við Þjóðleikhúsið, leikið í ótal leikritum og söngleikjum á sviði, í sjónvarps- og útvarpsleikritum, áramótaskaupum, kvikmyndum og auglýsingum en hefur einnig mikið komið fram sem sjálfstæður skemmtikraftur og með hópum eins og Úllen dúllen doff og Spaugstofunni, báðir þeir hópar hafa sent frá sér plötur með grínefni sem naut mikilla vinsælda. Úllen dúllen doff voru útvarpsþættir, byggðir á stuttum leiknum atriðum en úrval efnis úr þáttunum var gefið út á samnefndri plötu 1980, sami hópur stóð svo að baki plötunnar Kisubörnin kátu árið 1983. Þættir Spaugstofunnar í Ríkissjónvarpinu og síðar á Stöð 2 eru einnig klassískt efni sem flestir þekkja, þótt þættirnir væru fyrst og fremst sjónvarpsefni sendu þeir félagar í upphafi frá sér eina plötu með grínefni (1986) sem bar titilinn Sama og þegið, sem varð gríðarlega vinsæl.

Sigurður á sér nokkur aukasjálf sem mörg hver eru vel þekkt, nokkrir þeirra karaktera hafa birst á plötum og sumir á fleiri en einni. Hér er fyrst nefndur Dolli, vitgrannur látbragðsleikari og brandarakarl sem í fyrstu kom fram ásamt keimlíkum félaga sínum Dodda (Þórhalli Ladda Sigurðsson) í sjónvarpi, Dolli varð sjálfstæðari eftir því sem tíminn leið og hefur komið fram á nokkrum plötum s.s. með Afa (Erni Árnasyni) á plötunni Afi og Dolli – Jólastjörnur (1996). Hann hefur einnig dúkkað upp á plötum eins og Djók (1996) þar sem hafnfirskir grínarar komu við sögu með söng og sprell. Heimir Schnitzel er önnur persóna sem er vel þekkt, hann myndar ásamt félaga sínum Harrý Rögnvalds (Karli Ágústi Úlfssyni) tvíeykið Harrý & Heimi sem poppaði fyrst upp í stuttum grínsketsum á útvarpsstöðinni Bylgjunni fyrir margt löngu. Síðar voru þeir félagar settir á svið í Borgarleikhúsinu og enn síðar var gerð kvikmynd með þeim en auk þess hafa komið út plötur með úrvali þáttanna á Bylgjunni.

Sigurður á yngri árum

Árið 1983 kom út plata með Sigurði sem bar heitið Bakkabræður: Sigurður Sigurjónsson leikur og les, á henni les hann ævintýri Bakkabræðra úr Þjóðsögum og ævintýrum Jóns Árnasonar en nokkrum árum áður (1978)  hafði hann ásamt nokkrum öðrum leikurum leiklesið nokkur Grimms ævintýri á plötunni Ævintýra-landið: Fjögur vinsælustu ævintýri Grimmsbræðra. Báðar þessar plötur hafa verið endurútgefnar á geisladiskum reyndar eins og flestar ef ekki allar aðrar ofangreindar plötur.

Söng og leik Sigurðar má jafnframt heyra á fjölmörgum plötum sem komið hafa út í tengslum við leikhúsið en hann hefur einnig leikstýrt fjölda þess konar stykkja, hér má t.d. nefna Öskubusku (1978), Gulleyjuna (2012), Gauragang (1994), Gosa (1982), Óvita (2004) og Dýrin í Hálsaskógi (2004). Þá kom hann einnig við sögu á plötum eins og Tommi og Jenni mála bæinn rauðan (1993) og Vökuland (2007).

Efni á plötum