Kanakokteillinn

Kanakokteillinn
(Lag og texti: Böðvar Guðmundsson)
 
Hefurðu komist í kokteilinn þann
sem Kaninn á Vellinum býður?
Mörgum finnst þungur í maganum hann
og margan í kverkarnar svíður.
Víetnamblóð í vínið þar er látið
og vonleysisins tár, sem fanginn hefur grátið.
Geislavirkt ryk og grískur kvalalosti,
gullmolar, hungur og þorsti.

Og auk þess er látið í óskaveig þá,
sem amrískir verndarar bjóða,
köggull úr fingri og kjúka úr tá,
og kvalavein arðrændra þjóða.
Heilaþveginn börn og hlekkjaþrælsins sviti,
og hörund sem að skín af napalmflísagliti.
Svertingjagall og soramenguð fjóla,
sódavatn, Pepsi og kóla.

Og hefurðu litið það höfðingjapakk,
sem hópast að verndarans sopa?
Íslenski forsetinn af honum drakk
án þess að flökra eða ropa.
Ríkisfólk og þingsins ráðamannaklíka,
og ritstjórinn á Mogga fengu sopa líka.
Langar þig ekki líka til að smakka?
Lúta svo höfði og þakka.

[af plötunni Böðvar Guðmundsson og Kristinn Sigmundsson – Þjóðhátíðarljóð 1974]