Lady fish and chips
(Lag / texti: erlent lag / Jónas Árnason)
Fögur er hún eins og sól,
klædd í rauðan satínsilkikjól,
hún er áfeng eins og alkóhól,
lady fish and chips.
Skín af henni glit og glans
og hún gengur um með elegans
og hún kann að stíga djarfan dans,
lady fish and chips.
Og þannig amorsbogann upp hún spennir
og þegar nóttin nálgast fer,
hún af sér kjólnum sínum rauða rennir
og hún reykir Kommander.
Hún er laus við hugarvíl,
hún er þrungin sönnum sexappíl,
hún er straumþung eins og áin Níl,
lady fish and chips.
Ó sú dásemd drottinn minn
þegar fundumst við í fyrsta sinn
og við tókum saman tangóinn,
lady fish and chips.
Ekkert þýddi uss né suss,
blóðið í mér þeyttist þvers og kruss
upp í suðumark á selsíus,
lady fish and chips.
[m.a. á plötunni Sigurður Guðmundsson og Memfismafían – Oft spurði ég mömmu]