Söngur verkamanna

Söngur verkamanna
(Lag / texti: Áskell Snorrason / Kristján frá Djúpalæk)

Við unnum það sem unnið var
um Íslands breiða vang.
Og bóndinn okkar bróðir er,
og bræður þeir um nes og ver,
er sækja sjávarfang.
Við ruddum vegi, byggðum brýr
og brutum land í góðri trú,
sem hlýðin vinnuhjú.
En byggðin þrengdist, burt var sótt
og brotinn akur nýr.

Hvað væri þjóð án verkamanns!
Þó vill hann gleymast oft.
Þá fagnað nýrri framkvæmd er,
þeir fjáðu og lærðu hrósa sér
og lyfta skál á loft.
En hungurlaun oss harðstjórn galt.
Og hver er sá er þekkir ei
hið napra andsvar: Nei,
sem bað um starf í beiskri neyð,
er barn og kona svalt.

Við erum starfsins stolta lið
og stétt vor efld í raun.
Við krefjumst vinnu, krefjumst brauðs,
við krefjumst réttra skipta auðs,
að hljóti hver sín laun.
En vinna aðeins sjálfum sér
er sök við lífsins boðorð hvert.
Hitt verður mest um vert:
Að saman jafnt í sókn og vörn
og sigri stöndum vér.

[af plötunni Maíkórinn – Við erum fólkið]