Stígur
(Lag / texti: Snæbjörn Ragnarsson / Snæbjörn Ragnarsson og Sævar Sigurgeirsson)
Hver er það sem geymir undir rifi hverju ráð?
Reddar alltaf málunum með einni hetjudáð.
Hver er þessi strákur, já og hvernig fer hann að?
Hvað viljið þig vita? Ég skal segja ykkur það.
Bjáti eitthvað á hann alltaf bjargar fyrir horn,
berst við úlfa, vampírur og móðursjúka norn.
Vitið ekki ennþá hvern ég var að tala um?
Nú þá verðið þið að hlusta?
Þetta er Stígur,
í kringum hann er enginn rígur,
frjáls sem fuglinn um hann flýgur,
úr flestum vandræðum hann smýgur.
Hver er það sem lætur enga leti stöðva sig,
lífið færir upp á nýtt og skemmtilegra stig?
Verður ekki þreyttur á að vaða eld og reyk,
veit alltaf hvað réttast er að gera‘ í næsta leik.
Klókur eins og He-man eða Harrison og Bond,
heiminum hann reddar þegar ógna öflin vond.
Vitið ekki ennþá hvern ég var að tala um?
Nú þá verðið þig að hlusta:
Þetta er Stígur,
í kringum hann er enginn rígur,
frjáls sem fuglinn um hann flýgur,
úr flestum vandræðum hann smýgur.
Hann rotar risastóran tígur
og róar sjokkeraðar kvígur.
Ef uxi stangar hann mann-ýgur,
hann er á báðar hendur vígur.
Þetta er Stígur,
í kringum hann er enginn rígur,
frjáls sem fuglinn um hann flýgur,
úr flestum vandræðum hann smýgur.
Ef undir fótum gapir gígur,
sem gunga aldrei puttann sýgur.
Kaldur karl sem aldrei lýgur,
á kvöldin þreyttur niður hnígur.
Já hver er það sem geymir undir rifi hverju ráð,
reddar alltaf málunum með einni hetjudáð?
Vitið ekki núna hvern ég var að tala um?
Hann vafalaust fer beint í hóp með ofurhetjunum.
[af plötunni Snæfríður og Stígur – Undarlegt hús: Tónlist úr Stundinni okkar 2006 – 2007]