Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur [1] (1947-50)

Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur 1948

Segja má að Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur (hin fyrri) hafi verið eins konar brú á milli Hljómsveitar FÍH og upphaflegrar útgáfu Sinfóníuhljómsveitar Íslands en sami mannskapur skipaði þessar þrjár sveitir að mestu.

Nokkrar tilraunir höfðu verið gerðar á Íslandi frá því á þriðja áratugnum til að stofna hljómsveitir sem spiluðu klassíska tónlist og höfðu fáeinar þeirra gengið í nokkur ár eins og Útvarpshljómsveitin og Hljómsveit Reykjavíkur. Hljómsveit FÍH var enn ein slík tilraun og hafði verið stofnuð 1944 upp úr Hljómsveit Reykjavíkur en þegar hún lognaðist útaf (líklega síðla árs 1946) var ný sveit stofnuð með svo til sama mannskap vorið 1947 undir nafninu Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur, styrkt af einhverju leyti af Alþingi. Reyndar voru áhöld um hvort sveitin bæri nafnið Simfóníuhljómsveit Reykjavíkur (Symfóníuhljómsveit Reykjavíkur) eða Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur og þrjóskuðust sumir blaðamenn lengi vel við að rita nafn hennar með m-i þrátt fyrir að sveitin sjálf gæfi það út að rithátturinn yrðu með n-i.

Hafist var handa við undirbúning vorið 1947 og svo hófust æfingar um haustið en fyrstu tónleikarnir voru svo haldnir í hinu tiltölulega nýbyggða Austurbæjarbíói í janúar 1948. Þar voru meðlimir hennar þrjátíu og níu talsins en sveitin lék þar verk eftir Beethoven og Haydn undir stjórn Victor Urbancic, fyrsti einleikari með sveitinni var Rögnvaldur Sigurjónsson píanóleikari. Margir þekktir tónlistarmenn léku með sveitinni og meðal þeirra má nefna Ingvar Jónasson fiðluleikara, Vilhjálm Guðjónsson klarinettuleikara, Karl O. Runólfsson trompetleikara, Andrés Kolbeinsson óbóleikara, Þórhall Árnason sellóleikara og Þorvald Steingrímsson fiðluleikara.

Í kjölfarið hélt sveitin fáeina tónleika, m.a. í Trípólíbíói og Þjóðleikhúsinu og komu ýmsir stjórnendur að þeim tónleikum s.s. Róbert A. Ottósson og Páll Ísólfsson, Urbancic þó líklega oftast. Eftir því var tekið að sveitinni fór hratt fram og stefndu menn því hærra, og fljótlega kom hún að stórum tónleikum ásamt Söngfélaginu Hörpu og einsöngvurum þar sem flutt voru verk eftir Karl O. Runólfsson. Þá komu út þrjár plötur á vegum Fálkans 1949 þar sem sveitin lék með Tónlistarfélagskórnum.

En starfsgrundvöllur Sinfóníuhljómsveitar Reykjavíkur var veikur og árið 1950 kom að því að ný sveit var stofnuð með aðkomu Reykjavíkur-borgar og Ríkisútvarpsins en undirbúningur að þeirri sveit hafi þá staðið í nokkurn tíma, það var sú sveit sem síðar hlaut nafnið Sinfóníuhljómsveit Íslands og við stofnun þeirrar sveitar var Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur lögð niður og meðlimir hennar gengu til liðs við hina nýju sveit. Nafn Sinfóníuhljómsveitar Reykjavíkur var þó áfram notað að einhverju leyti á hina nýju sveit sem reyndar gekk undir ýmsum nöfnum fyrstu árin.

Efni á plötum