Afmælisbörn 13. nóvember 2021

Sverrrir Bergmann

Afmælisbörn dagsins eru fimm að þessu sinni:

Ingibjörg Guðjónsdóttir sópran söngkona og kórstjórnandi er fimmtíu og sex ára í dag. Hún gaf út plötu með óperuaríum fyrir nokkrum árum og síðar einnig djassskotnu plötuna Ó ó Ingibjörg, ásamt bræðrum sínum, hún hefur aukinheldur sungið inn á nokkrar aðrar plötur. Ingibjörg hefur stjórnað Kvennakór Garðabæjar og kvennakórnum Seljum sem dæmi.

Söngvarinn, margmiðlunar- og viðskiptafræðingurinn Sverrir Bergmann (Magnússon) frá Sauðárkróki er fjörutíu og eins árs gamall í dag. Sverrir vakti fyrst athygli þegar hann sigraði Söngkeppni framhaldsskólanna vorið 2000 en síðan þá hefur hann gefið út sólóplötur, starfað með hljómsveitum eins og Daysleeper og sungið á fjölmörgum plötum. Þekktastur er hann þó líklega fyrir að syngja Þar sem hjartað slær með Fjallabræðrum.

Arnþór Örlygsson (of kallaður Addi 800) upptökumaður er fimmtíu og eins árs gamall í dag, hann hefur stýrt upptökum, tekið upp og hljóðblandað margar af vinsælustu plötum landsins seinni ára, þar má til dæmis nefna Land og syni, Stuðmenn, Þúsund andlit og Bubba Morthens. Þess má geta að hann lék á gítar með hljómsveitinni Blautum dropum fyrir margt löngu.

Stefán Jónsson eða Stebbi í Lúdó er sjötíu og níu ára gamall á þessum degi. Það nægir að nefna Lúdó sextett svo fólk átti sig á um hvern er að ræða en með þeirri sveit sló Stefán í gegn með lögum eins og Því ekki að taka lífið létt?, Laus og liðugur, Halló Akureyri og Átján rauðar rósir, áður hafði hann einnig sungið um Jóa Jóns með SAS tríóinu. Stefán hefur sungið með ótal sveitum s.s. Sextett Jóns Sigurðssonar, The Robots, Þyrnum og Rokkbræðrum, og sungið inn á fjölda platna.

Matthías Jochumsson ljóðskáld (1835-1920) átti ennfremur afmæli þennan dag, hann orti m.a. ljóðið við þjóðsöng okkar Íslendinga, Lofsöng (Ó, guð vors lands) og ljóðið Minni kvenna (Fósturlandsins freyja) svo dæmi séu tekin.

Vissir þú að Þursaflokkurinn lék undir á síðustu plötu Silfurkórsins?