Sinfóníuhljómsveit æskunnar (1985-96)

Sinfóníuhljómsveit æskunnar

Sinfóníuhljómsveit æskunnar var starfrækt hér á landi í tæplega áratug og tókst á við fjölmörg ótrúleg og krefjandi verkefni undir stjórn og handleiðslu Bandaríkjamannsins Paul Zukofskys, þegar hans naut ekki lengur við fjaraði smám saman undan sveitinni uns hún lognaðist út af 1996.

Paul Zukofsky hafði á árunum 1977 til 84 verið með námskeið fyrir ungt tónlistarfólk hér á landi, efnilega nemendur sem voru komnir af byrjunarstigi tónlistarkennslunnar, og þóttu þau námskeið mikill hvalreki fyrir íslenskt tónlistarlíf enda var Zukofsky bæði þekktur fiðluleikari og leiðbeinandi sem gerði miklar kröfur til nemenda sinna.

Sinfóníuhljómsveit æskunnar varð til upp úr þessum námskeiðum Zukofskys en frumkvæðið kom frá nokkrum  tónlistarskólum í tilefni af Ári æskunnar árið 1985 en sveitin var þá stofnuð í ársbyrjun eftir nokkurra mánaða undirbúning. Stofnaðilar að sveitinni voru Tónlistarskólinn í Reykjavík, Tónmenntaskólinn í Reykjavík, Tónlistarskóli Seltjarnarness, Tónlistarskóli Sandgerðis, Tónlistarskólinn í Keflavík og Tónlistarskóli Ísafjarðar, fljótlega bættust þó fleiri tónlistarskólar í hópinn. Verkefnið var því fjármagnað af tónlistarskólunum en einnig komu framlög frá tónelskum einstaklingum og fyrirtækju. Fyrirkomulag starfseminnar var með þeim hætti að Zukofsky kom hingað til lands tvisvar á ári og æfði sveitin þá undir handleiðslu hans í nokkrar vikur og að þeim vikum loknum voru haldnir tónleikar sem fyrstu árin voru haldnir í sal Menntaskólans við Hamrahlíð en eftir því sem sveitin færðist í fang færðust tónleikar hennar í stærri hús s.s. Háskólabíó, þegar hún varð hluti af dagskrár Listahátíðar í Reykjavík.

Í upphafi var Sinfóníuhljómsveit æskunnar skipuð um áttatíu nemendum á aldrinum 13 til 20 ára og var fjöldinn svipaður eftir það en fór reyndar eftir umfangi verkefnanna sem unnið var að hverju sinni, stundum komu ungt og efnilegt tónlistarfólk frá öðrum löndum til að leika með sveitinni og margir þekktir einleikarar og einsöngvarar tóku þátt í verkefnum hennar.

Strax eftir fyrstu tónleika Sinfóníuhljómsveitar æskunnar var ljóst að eitthvað merkilegt væri að gerast en Zukofsky hafði lag á að ná fram hinu besta úr hverjum og einum þótt ekki væru allir sammála aðferðunum en hann þótti afar strangur og kröfuharður, því verður ekki neitað að árangurinn varð framúrskarandi. Annað sem þótti merkilegt var að efnisval hans var með þeim hætti að hann sneiddi algjörlega framhjá klassískum standördum e. Mozart, Bach og Beethoven (sem allar aðrar sveitir voru að leika hérlendis) en valdi hins vegar 20. aldar tónskáld og verk sem aldrei höfðu verið flutt hér á landi, eða jafnvel bara aldrei flutt – eins og óperan Baldr e. Jón Leifs sem sveitin flutti ásamt Söngsveitinni Fílharmóníu og Ólafi Kjartani Sigurðssyni einsöngvara í Háskólabíói 1991, sem var auðvitað ekkert annað en stórviðburður í íslenskri tónlistarsögu. Árið eftir (1992) kom sá flutningur út á vegum útgáfufyrirtækis Zukofskys í Bandaríkjunum á tvöfaldri plötu, um svipað leyti kom einnig út splitplata (ásamt Colonal symphony) þar sem sveitin flutti verkið Pelleas & Melisande (e. Arnold Schoenberg).

Fyrst um sinn naut sveitin fjármagns frá tónlistarskólunum, einstaklingum og fyrirtækjum eins og fyrr er nefnt en frá árinu 1987 kom hið opinbera inn í myndina með styrkjum og Reykjavíkur-borg tveimur árum síðar svo rekstrargrundvöllurinn var tryggður enda var mönnum þá orðið ljóst hversu öflugt og merkilegt starf var hér verið að vinna enda þótti sveitin mun djarfari og framsæknari í efnisvali en t.d. Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Sinfóníuhljómsveit æskunnar 1988

Árið 1993 varð vendipunktur í starfi sveitarinnar þegar ný stjórn (sem hafði tekið við árið á undan) vildi gera breytingar á fyrirkomulagi því sem hafði verið frá upphafi starfsins, m.a. varðandi ráðningartíma, meiri afskipti af starfi Zukofskys s.s. efnisvali o.fl., þegar ljóst var að menn næðu ekki samningum var honum gert ljóst að ekki væri óskað lengur eftir starfskröftum hans og heilmiklar deilur urðu í kjölfarið sem komu m.a. fram í blaðaskrifum þar sem margir voru á því að Zukofsky hefði í raun verið flæmdur í burtu eftir hið frábæra starf sem hann hafði innt af hendi. Sveitin varð fyrir vikið óstarfhæf og stjórn hennar klofnaði þar sem fulltrúar foreldra og nemenda sögðu sig frá henni enda höfðu listamennirnir sjálfir, nemendurnir ekkert verið spurðir um álit. Þarna hafði þegar verið ráðgert að sveitin myndi flytja Sögusinfóníuna eftir Jón Leifs á Listahátíð  1994 og vera í samstarfi við Óperusmiðjuna við flutning á verki í Borgarleikhúsinu en ekkert varð úr því, kunnir tónlistarmenn urðu til að gagnrýna stjórn hljómsveitarinnar opinberlega og um haustið undirrituðu fjörutíu og fimm meðlimir sveitarinnar skjal til að mótmæla ákvörðun hennar.

Svo virtist jafnvel sem sögu Sinfóníuhljómsveitar æskunnar væri lokið og en snemma árs 1994 birtust fréttir um að tónleikar með sveitinni væru fyrirhugaðir en ýmsar breytingar hefðu orðið á starfsemi hennar, ekki yrðu fastir leiðbeinendur og stjórnendur við störf heldur svokallaðir gestastjórnendur sem ynnu með sveitinni tímabundið, einnig yrðu æfingaloturnar styttri en um leið fleiri, og strengja- og blásarasveitirnar myndu að miklu leyti æfa sér.

Fyrstur í röð gestastjórnenda var Bretinn Christopher Adley sem stjórnaði sveitinni á tónleikum en hún hafði þá ekki leikið opinberlega í tæplega ár. Skærunum í kringum sveitina var þó ekki lokið því Atli Heimir Sveinsson tónskáld, einn af þeim sem hafði staðið framarlega í mótmælunum gegn brottrekstri Zukofskys ritaði dóm um tónleikana þar sem deilunni var ýtt upp á yfirborðið aftur. Smám saman lægði öldurnar en mörgum var málið þó áfram mjög hugleikið enda hafði Zukofsky unnið gríðarlega öflugt starf og haft mikil áhrif á unga og verðandi tónlistarmenn.

Næstu árin komu ýmsir gestastjórnendur að samstarfi við Sinfóníuhljómsveit æskunnar s.s. Petri Sakari og Bernharður Wilkinson en vegur sveitarinnar fór heldur minnkandi, og yfirleitt lék hún í samstarfi við aðra s.s. Sinfóníuhljómsveit Íslands en hélt ekki eigin sjálfstæða tónleika. Þannig má segja að fjarað hafi smám saman undan sveitinni og lék hún á sínum síðustu tónleikum árið 1996 og hefur ekki starfað síðan. Ekki var svo starfandi sambærileg sveit hérlendis fyrr en Sinfóníuhljómsveit unga fólksins var sett á laggirnar árið 2004.

Sinfóníuhljómsveit æskunnar var verkefni sem leiddi margt gott af sér fyrir íslenskt tónlistarlíf þótt deilurnar í kringum brottför Zukofskys skyggi þar nokkuð á, það hlýtur að bera vitni um frábært starf hans að hann hlaut á þeim tíma ýmsar viðurkenningar fyrir það, s.s. fálkaorðuna, menningarverðlaun DV og STEF-verðlaun, auk þess hlaut sveitin viðurkenningu Aflvaka á tíu ára afmæli hennar. Sveitin gat jafnframt af sér fjölda þekkts tónlistarfólks sem starfar í dag sem atvinnufólk víða um heim, hér má nefna fáein nöfn eins og Elfu Rún Kristinsdóttur fiðluleikara, Unu Sveinbjarnardóttur fiðluleikara, Hrafnkel Orra Egilsson sellóleikara, Hlín Erlendsdóttur fiðluleikara, Einar Jónsson básúnuleikara og Olgu Björk Ólafsdóttur fiðluleikara.

Efni á plötum