Afmælisbörn 8. desember 2021

S. Björn Blöndal

Á þessum degi eru afmælisbörn Glatkistunnar fjögur talsins:

Guðni (Þórarinn) Finnsson bassaleikari Ensímis er fimmtíu og eins árs gamall í dag. Auk þess að vera bassaleikari í Ensími hefur Guðni leikið með hljómsveitum eins og Áhöfninni á Húna II, Bikarmeisturunum, Dr. Spock, Rass, Pondus, Hispurslausa kvartettnum og mörgum fleirum. Guðni hefur meira að segja farið sem einn af fulltrúum Íslands í Eurovision keppnina þegar hann var í Pollapönks-liðinu.

Rúnar Örn Friðriksson er fimmtíu og þriggja ára gamall á þessum degi. Rúnar Örn söng með hljómsveitinni Sixties sem gaf út fjölmargar plötur en hann hefur einnig sungið með sveitum eins og Jötunuxum, U3 project, Fullu tungli, Kinkí, Flower power og Drykkjum innbyrðis.

Bassaleikarinn og fyrrverandi borgarfulltrúinn S. Björn Blöndal er fimmtíu og tveggja ára í dag, hann er kunnastur fyrir spilamennsku í hljómsveitinni Ham en hefur einnig starfað með sveitum eins og Funkstraβe, Gáfnaljósunum, Drullu og Rass, með síðast töldu sveitinni var hann reyndar gítarleikari.

Rafn Jónsson (Rabbi) trommuleikari, lagahöfundur, plötuútgefandi og margt annað, hefði líka átt afmæli þennan dag en hann lést 2004 úr MND sjúkdómnum. Rabbi (fæddur 1954) lék með ógrynni hljómsveita á sínum ferli en þekktustu sveitir sem hann lék með voru Sálin hans Jóns míns, Bítlavinafélagið, Grafík, Ýr og Haukar. Rabbi gaf einnig út nokkrar sólóplötur og plötur í félagi við aðra, þar sem fjölmörg lög hans nutu vinsælda.

Vissir þú að lag Skapta Ólafssonar, Syngjum dátt og dönsum er líklega fyrsta íslenska rokklagið en það kom út 1957?