Skólahljómsveitir Verzlunarskólans (1932-)

Skólahljómsveit Verzlunarskólans

Löng hefð er fyrir öflugu tónlistar- og leiklistarstarfi í félagslífi nemenda Verzlunarskóla Íslands og hafa nemendamót skólans iðulega verið með stærri samkomum sem nemendafélög skóla hér á landi halda utan um, þar hafa um langt árabil verið settar upp stórar leiksýningar, oft söngleikir á svið með hljómsveit og söng. Málið hafa þó þróast með þeim hætti að í stað eiginlegra skólahljómsveita sem störfuðu áður innan skólans eru nú fengnir atvinnumenn í faginu. Önnur hefð innan skólans sem hefur haldist um áratuga skeið er Verzló vælið, söngkeppni Verzlunarskólanema en það er auðvitað önnur saga sem ekki er rakin hér.

Verzlunarskóli Íslands var stofnaður 1905 og það var svo árið 1932 sem nemendamót (árshátíð) skólans var haldið í fyrsta sinn en það var í Iðnó og þar var hátíðin haldin fyrstu árin. Á fyrsta nemendamótinu var auk annarra skemmtiatriði boðið upp á hljómsveit skólans sem líklega var þá strengjakvartett en ekki finnast frekari upplýsingar um þá sveit, þá strax var fengin utanaðkomandi hljómsveit til að leika á dansleik tengdum nemendamótinu en þó er varla hægt að tala um utanaðkomandi í því samhengi því það var hljómsveit Aage Lorange (sem þá kallaðist Reykjavíkur-band) sem var einmitt húshljómsveit í Iðnó um það leyti.

Litlar sögur fara af hljómsveitahaldi innan Verzlunarskólans næstu árin, á árunum 1947-49 var reyndar starfandi þar sönghópur sem kallaðist Bláklukkur en árið 1949 var skólahljómsveit þar starfrækt og reikna má með að svo hafi verið um tíma. Heimildir um hljómsveitir skólans á þessum árum eru reyndar mjög stopular, fyrir liggur að það voru starfandi skólahljómsveitir 1953 og 1956-58 sem Gunnar Mogensen trommuleikari og Gunnar Sigurðsson gítarleikari voru hluti af en ekki er vitað hverjir aðrir skipuðu þær. Um 1960 varð svo til hljómsveit sem líklega var nafnlaus og var skipuð sjö piltum sem sungu „kúrekalög“ og léku á hljóðfæri en sú sveit var eins konar forveri hljómsveitarinnar Savanna sem síðar hlaut nafnið Savanna tríóið. Einnig eru heimildir um að skólahljómsveitir hafi verið í skólanum 1963-65. Kór Verzlunarskólans hafði þarna verið starfræktur um árabil og var og hefur síðan verið áberandi á nemendamótum og reyndar öllu félagslífi skólans.

Árið 1967 af því er virðist, virðast verða nokkur þáttaskil í nemendamótshátíðarhöldum en þá var sett í fyrsta sinn leiksýning á svið með þeim hætti sem síðan þá hefur verið í skólanum, þá var söngleikurinn Allra meina bót sýndur við góða aðsókn – skólahljómsveit kom fram í þeirri sýningu en hún var skipuð þeim Birni Björnssyni, Halldóri Kristinssyni, Guðmundi Jónssyni og Georg Gunnarssyni. Þetta sama ár var einnig sönghópur innan skólans sem kallaðist Kátir félagar.

Hljómsveit skólans um miðjan sjöunda áratuginn

Í kjölfarið fylgdu söngleikir og leikrit sem sett voru í söngleikjaform næstu árin s.s. Hárið (1970), Ævintýri á gönguför (1972), Ímyndunarveikrin (1973) og Tommy (1974), og til að koma herlegheitunum á svið voru fengnir utanaðkomandi aðilar til að halda utan um tónlistarhlutann og komu þá gjarnan sjálfir með tónlistarmenn (eða þekktar hljómsveitir) með sér í flutninginn, þessir tónlistarmenn sáu þá einnig um undirleik og kórstjórn í leiðinni, hér má nefna menn eins og Sigurð Rúnar Jónsson, Magnús Kjartansson, Karl J. Sighvatsson o.fl.

Þessi þróun hélt svo áfram á níunda áratugnum en reyndar þó með undantekningum, t.d. mun hljómsveitirnar Fjórir piltar af Grundarstíg og Toppmenn með Jón Ólafsson þáverandi nemanda skólans í broddi fylkingar hafa leikið í sýningunni sem sett var á svið 1981 en Jón átti síðar eftir að koma margoft við sögu nemendamótanna sem tónlistar-, hljómsveitar- og kórstjóri og þá með utanaðkomandi menn með sér, Bítlavinafélagið varð t.d. til upp úr slíku samstarfi árið 1986. Fjölmargir aðrir tónlistarstjórar hafa komið að nemendamótunum s.s. Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, Hallur Ingólfsson, Vignir Snær Vigfússon o.fl. og nokkrir þeirra hafa verið í því hlutverki oftar en einu sinni.

Meðal sýninga sem settar hafa verið á svið á nemendamótum Verzlunarskólans má nefna Evitu, Rocky horror picture show, Fame, Bugsy Malone, Tívolí, Jesus Christ Superstar, The Wall, Cats, Saturday night fever, Mambó kings, Dirty dancing, Thriller, Wake me upp before you go go, Slappaðu af!, Made in USA, Sólstingur, Welcome to the jungle, Sextán, Á tjá og tundri, Footloose, Xanadu, Með allt á hreinu, Moulin rouge, Back to the future og þannig mætti áfram telja.

Nemendur Verzlunarskólans hafa í gegnum tíðina bryddað upp á ýmsum nýjungum til að vekja athygli á þessum sýningum sínum, árið 1988 var t.a.m. gert myndband við lag úr Fame (sem Hafsteinn Hafsteinsson söng), lög voru sett í útvarpsspilun og árið 1994 urðu þau tímamót að plata var í fyrsta sinn gefin út með tónlist frá nemendamóti, það var eins konar safnplata með sjö lögum úr Jesus Christ Superstar sem þá var viðfangsefnið og nokkrum eldri lögum. Það sama ár (1994) reis metnaðurinn hvað hæst meðal Verzlinga en þá leigði nemendafélagið m.a. sjónvarpsstöðina Sýn í tvo sólarhringa til að kynna sýninguna. Í nokkur ár á eftir komu út plötur sem þó voru í raun ekki opinberar útgáfur heldur fylgdu þær með aðgöngumiðum að sýningunum, í eitt skipti (2002) hefur m.a.s. tíu tommu vínylplata (græn) í 1500 eintökum með tónlist nemenda fylgt Verzlunarskólablaðinu.

Á þessum plötum hefur mátt heyra marga síðar þekkta söngvara stíga sín fyrstu spor á söngvarabrautinni s.s Védísi Hervöru Árnadóttur, Bjartmar Þórðarson, Heiðu Ólafs, Jón Jónsson, Friðrik Dór og Ólöfu Jöru Skagfjörð, meðal annarra þekktra nafna sem áður höfðu komið við sögu nemendamóta má t.d. nefna Valgerði Guðnadóttur, Helgu Möller, Pétur Hjaltested og Felix Bergsson en frammistaða þess síðast talda í Rocky horror árið 1984 varð til að Greifarnir fengu hann til liðs við sig.

Þrátt fyrir að eiginlegar skólahljómsveitir hafi lítt komið við sögu nemendamótanna frá því á sjöunda áratugnum hafa fjölmargar hljómsveitir og tónlistarhópar verið starfandi innan skólans, líklega var reyndar starfandi skólashljómsveit innan hans 2006 en hér má t.d. nefna Cosa nostra, Raddbandið, Kicks og StopWaitGo svo nokkur dæmi séu nefnd.

Efni á plötum