Skólalúðrasveit Ísafjarðar (1958-66)

Skólalúðrasveit Ísafjarðar 1961

Lúðrasveit var starfandi innan tónlistarskólans á Ísafirði undir lok sjötta áratugar síðustu aldar og fram á þann sjöunda, um tíma virðist sem um einhvers konar samstarf tónlistarskólans og barnaskólans hafi verið að ræða.

Skólalúðrasveitin var að öllum líkindum stofnuð haustið 1958 þegar Ísak E. Jónsson kom til starfa við tónlistarskólann og sá hann um að stjórna henni um veturinn. Baldur Geirmundsson kom næstur til sögunnar og stjórnaði sveitinni einnig í einn vetur og svo Vilberg Vilbergsson. Á þessum tíma voru um þrjátíu meðlimir í sveitinni og lék hún víða á Ísafirði.

Upplýsingar um næstu ár eru af skornum skammti og reyndar er ekki að finna neinar heimildir um starfsemi sveitarinnar fyrr en veturinn 1965-66, að Þórir Þórisson var stjórnandi hennar. Hann kom til kennslu haustið 1964 þannig að hann gæti hafa stjórnað henni frá þeim tíma. Eftir 1966 virðist sem starfsemi sveitarinnar hafi lagst af og liðlega áratugur leið uns næst var stofnuð slík hljómsveit við skólann, sú bar heitið Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar.