Skólakór Seljaskóla (1982-)

Skólakór Seljaskóla 2018

Seljaskóli hefur starfað síðan haustið 1979 og frá þeim tíma hafa skólakórar verið starfandi innan skólans, fyrst um sinn þó einungis með söngfólki á yngsta stiginu en eftir því sem skólinn starfaði lengur og stækkaði varð nemendahópurinn eldri.

Ekki er alveg ljós hvenær kór starfaði í fyrsta sinn við Seljaskóla en haustið 1982 var þar þó starfandi kór, upplýsingar er ekki að finna um stjórnanda þess kórs frekar en kórs sem var þar starfandi árið 1986 – það ár sungu nokkrir tíu ára nemendur úr kórnum inn á jólaplötuna Jól alla daga og komu þar við sögu í titillaginu sem Eiríkur Hauksson söng eftirminnilega. Líklegt er að Guðrún Magnúsdóttir hafi þá verið við stjórnina en hún var að minnsta kosti stjórnandi kórsins 1988 og líklegast til 1992.

Kórinn varð reyndar nokkuð áberandi eða öllu heldur hluti af kórnum á þessum árum því árið 1988 fékk Birgir Gunnlaugsson hann ásamt fleirum til að syngja á jólasafnplötunni Jólaballið, í kjölfarið kom sami hópur við sögu á kassettunum Barnaleikir 1-4 sem komu út á árunum 1989-92 undir stjórn Birgis. Þegar Birgir fékk svo þá hugmynd árið 1989 að stofna sönghóp barna í anda hinna bresku Mini pops lá beinast við að nota hópinn og nokkra til viðbótar undir nafninu Rokklingarnir – þannig að uppistaðan í Rokklingunum kom úr barnakór Seljaskóla.

Þegar Guðrún Magnúsdóttir hætti sem stjórnandi kórsins tók Kjartan Ólafsson við sem stjórnandi árið 1992 en engar upplýsingar er að finna um kórastarf í Seljaskóla frá 1992 og til 2017, síðan þá hefur verið starfandi kór innan skólans undir stjórn Vilborgar Þórhallsdóttur. Sá kór er tvískiptur, skipaður yngri og eldri nemendum.

Óskað er eftir frekari upplýsingum um kórinn, sérstaklega á milli 1992-2017.

Efni á plötum